Keflvíkingar halda vestur í Stykkishólm í dag en þar mætast Snæfell og Keflavík í fyrsta leik úrslitanna í Domino´s-deild kvenna kl. 19:15. Keflvíkingar hafa 11 sinnum orðið Íslandsmeistarar eftir úrslitakeppni og er félagið langsigursælasta kvennalið þjóðarinnar eftir að úrslitakeppnin var tekin upp árið 1993. Næsta lið á eftir Keflavík er KR með fjóra Íslandsmeistaratitla eftir úrslitakeppnina.
Fyrsti Íslandsmeistaratitill Keflavíkurkvenna kom árið 1988 en síðan þá hefur kvennalið félagsins alls orðið fimmtán sinnum Íslandsmeistari. Fimm sinnum hefur Sigurður Ingimundarson verið við stjórnartaumana þegar kvennaliðið verður Íslandsmeistari eftir úrslitakeppni en eins og allir vita er Sigurður við stýrið að þessu sinni. Sigurður er sá þjálfari í efstu deild kvenna sem oftast hefur orðið Íslandsmeistari eftir úrslitakeppnina, fimm sinnum eins og áður greinir.
Að sama skapi unnu Hólmarar sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil í sögu félagsins á síðustu leiktíð. Snæfell á því titl að verja þetta árið en þjálfari liðsins, Ingi Þór Steinþórsson hefur stýrt bæði karla- og kvennaliði félagsins til sinna fyrstu Íslandsmeistaratitla í sögu Snæfells.
Árangur Keflavíkur í úrslitaseríum frá 1993:
1993: Keflavík 3-0 KR
1994: Keflavík 3-2 KR
1995: Keflavík 0-3 Breiðablik
1996: Keflavík 3-1 KR
1998: Keflavík 3-1 KR
1999: KR 3-0 Keflavík
2000: KR 2-3 Keflavík
2001: KR 3-0 Keflavík
2003: Keflavík 3-0 KR
2004: Keflavík 3-0 ÍS
2005: Keflavík 3-0 Grindavík
2006: Haukar 3-0 Keflavík
2007: Haukar 3-1 Keflavík
2008: Keflavík 3-0 KR
2011: Keflavík 3-0 Njarðvík
2013: Keflavík 3-1 KR
Sigurleikir í úrslitum: 37
Tapleikir í úrslitum: 19
Árangur Snæfells í úrslitaseríum frá 1993:
2014: Snæfell 3-0 Haukar
Sigurleikir í úrslitum: 3
Tapleikir í úrslitum: 0
Mynd/ Frá árinu 2011 þegar Keflavík varð Íslandsmeistari eftir úrslitaseríu gegn Njarðvík



