ÍR hefur samið við Emilio Banic um að leika með liðinu á yfirstandandi tímabili í Bónus deild karla.
Liðið lét leikmann sinn Zarko Jukic fara á dögunum, en hann fór til Ármanns og hafði liðið því pláss í leikmannahópi sínum fyrir fjórða erlenda leikmanninn.
Emilio er 31 árs 196 cm framherji sem er með mikla reynslu úr evrópskum körfubolta og hefur leikið í sterkum deildum víðs vegar um Evrópu, meðal annars í Króatíu, Þýskalandi og Austurríki. Á síðasta tímabili var hann hluti af liði Nord Dragonz sem hafnaði í öðru sæti í austurrísku úrvalsdeildinni
„Emilio er leikmaður sem passar mjög vel inn í það sem við erum að byggja upp. Hann kemur með mikla reynslu úr sterkum deildum, er yfirvegaður í sókn og hefur sýnt að hann getur hitt stór skot þegar mikið er undir. Við teljum hann styrkja hópinn okkar og erum mjög ánægðir með að fá hann til ÍR,“ segir Borche Ilievski, þjálfari meistaraflokks karla.



