spot_img
HomeFréttirAxel Nikulásson: Grunnþjálfun er ábótavant í Kína

Axel Nikulásson: Grunnþjálfun er ábótavant í Kína

10:00

{mosimage}

Axel í baráttu við Haukamennina Ívar Ásgrímsson og Ólaf Rafnsson 

Axel Nikulásson þarf vart að kynna fyrir íslenskum körfuknattleiksunnendum. Axel lék lengi með Keflavík og KR auka landsliða Íslands. Að leikmannsferlinum loknum fór hann að þjálfa og þjálfaði karlalið KR um tíma auk þess að þjálfa yngri landslið Íslands. Hann var t.d. þjálfari drengja fæddra 1976 sem náðu frábærum árangri í Evrópukeppni.

Í dag starfar Axel hjá sendiráði Íslands í Kína. Við höfðum samband við hann og lögðum nokkrar spurningar fyrir hann.

Fylgist þú með Iceland Express deildinni þó þú sért í Kína?
Ég reyni eins og ég get að fylgjast með, en leikirnir sem ég hef séð á undanförnum keppnistímabilum eru fáir. Mig minnir að ég hafi séð einn leik síðan 2005.

Hvernig finnst þér deildin í dag?
Mér virðist deildin vera jafnari en oft áður, a.m.k. sér maður lið sem einu sinni töldust minni spámenn, vera að sigra „stærri” liðin.

Hvað með úrslitakeppnina? Hvaða lið hafa komið á óvart og hvað lið verður meistari?
Ég átti ekki von á því að ÍR myndi sigra KR, taldi víst að KR ynni 2-0 en ÍR er sterkara en það hefur verið í nokkurn tíma að mínu viti. Veikindi Friðriks Stefánssonar voru líka ófyrirsjáanleg þannig að einvígi Njarðvíkinga og Snæfells hefði hugsanlega farið á annan veg hefði hann verið með. Að sjálfsögðu styð ég Keflavík til sigurs en mér segir svo hugur að Sigurður Ingimundarson sé ekki ánægður með uppskeru síðust tveggja ára.

Hefur þú tekið eftir einhverjum athyglisverðum leikmönnum, íslenskum, erlendum.
Treysti mér ekki til að segja neitt hér því ég hef ekki séð marga leikmenn deildarinnar spila. Starfið í kringum FSu er gaman að lesa um og reyni ég að fylgjast með því eins og ég get.

Hvað með landsliðið, á það einhverja möguleika á að komast upp í A deild á næstunni? Eru einhverjir eftir í liðinu af þeim sem þú þjálfaðir í 76 árgangnum?
Landsliðinu fylgist ég alltaf vel með. Hef reyndar séð liðið spila í tvígang erlendis, fyrst í Danmörku en þá var ég staddur þar vegna fundar og svo í Kína eftir að ég fluttist hingað. landsliðið er vitaskuld mitt uppáhaldslið. Af 76 liðinu eru fáir eftir, Friðrik Stefánsson. Páll Kristinsson og Gunnar Einarsson eru þeir síðustu ef ég man rétt. Nokkrir fleiri hefðu örugglega verið enn að ef meiðsli hefðu ekki komið til.

Hvað með yngri landsliðin, fylgist þú með þar?
Það eru fá tækifæri sem bjóðast að fylgjast með þeim. Áhuginn kemur fyrst og fremst ef maður þekkir einhvern í liðinu eða hefur séð tiltekna leikmenn spila. Ég hef þó fengið fréttir af árangri og nokkur símtöl frá erlendum aðilum sem hafa verið að spyrja um íslenska leikmenn.

Sérðu einhverja efnilega koma upp þar?
Ég hef heyrt af tveimur efnilegum strákum, Vali Orra Valssyni í Borgarnesi og Gunnari Ólafssyni í Fjölni en veit ekki hvort þeir eru í landsliðsverkefnum. Ótttast samt ekki að það skorti hæfileikaríka krakka.

Þá að Kína. Fylgist þú með körfuknattleik í Kína, þá á ég við deildarkeppni. Hvernig er annars formið þar?
Kínverska deildin er sæmilega sterk en ég hef ekki fengið áhuga sérstakan áhuga á henni.

Eru fleiri Kínverjar á leið í NBA?
Ég hef ekki séð neinn sérstakan sem líklegur er til að fara í NBA. Í deildinni eru 2-3 stórir skotmenn (203-205) sem geta skotið á við Guðjón Skúlason, en þeir eru ekki fótafimir og yrðu dustaðir til í NBA. Kínverjar eiga líka einn stóran strák í sérþjálfun í Bandaríkjunum sem er yfir 230 en hann á einhver ár eftir í að verða að leikmanni.

Ég leit s.l. vor inn á æfingabúðirir sem NBA stóð fyrir hér og bauð ca. 60 af bestu ungu leikmönnunum að taka þátt. Þetta voru strákar á aldrinum 15-17 ára og margir hverjir stórir og eflaust efnilegir. Ég horfði á þennan hóp daglangt og tel að Kínverjar verði að taka verulega til í grunnþjálfun sinni. Vel flestir þeirra voru greinilega búnir að læra allt sem þeir gátu af NBA fyrirmyndunum, sem stundum eru einfaldlega til óþurftar.

NBA kynslóðin svokallaða er fjölmenn hér og hundruðir valla með krökkum að leika sér. Kína þarf að brúa bilið á milli götuboltans og svo alvöru boltans til að taka næsta stóra skref. Ég hef hinsvegar fulla trú á að það gerist á næsta áratug… en ekki fyrr.

Hvað með kínverska landsliðið? Á það möguleika á Ólympíuleikunum?
Ef Yao Ming er ekki á fullum styrk á leikunum eiga Kínverjar ekki möguleika á að komast uppúr riðlakeppninni. Yi Jianlian er enn ekki sá bógur sem þarf til að bera liðið. Wang Zhi Zhi hefur spilað frábærlega í deildinni undanfarin tvo ár, en deildin er veikari en Ólympíuleikarnir og ekki líklegt að hann skili sömu tölum og í deildinni. Wang hefur samt þroskast sem leikmaður og óttast ekki að taka síðasta skotið sem mér fannst Yi oft gera síðust árin sín í Kína. Liðið er með gamalreyndan þjálfara en hann hefur verið undir nokkurri pressu í kínverskum fjölmiðlum m.a. fyrir að gagnrýna leikmenn fyrir að leggja sig ekki alla fram í leikjum. Slíkt er ekki vel séð þar sem leikmenn eru margir hafnir yfir gagnrýni. Slíkt er eflaust draumastaða fyrir suma leikmenn en aldrei fyrir þjálfara. Það vantar líka nokkuð uppá að séu nægilega sterkir líkamlega og grunnþjálfun er ábótavant.

Ætlar þú að vera í Peking á meðan Ólympíuleikarnir eru og fylgjast með körfuboltakeppninni?
Vinnu minnar vegna verð ég í Beijing á meðan á leikunum stendur. Mér tókst að ná mér í miða á úrslitaleikinn og hlakka til að upplifa stemninguna. Vonast til að sjá Argentínu þar, en Bandaríkin eiga auðvitað góða möguleika á að vinna loksins gull á alþjóðamóti.

[email protected]

Mynd: Einar Falur Ingólfsson

Fréttir
- Auglýsing -