Avery Johnson verður næsti þjálfari New Jersey Nets í NBA deildinni, en tilkynnt verður um ráðningu hans síðar í dag.
Eftir hræðilegt tímabil þar sem liðið vann aðeins 12 leiki er áætlað að snúa liðinu við á mettíma þar sem nýr eigandi, milljarðamæringurinn Mikhail Prokhorov, hefur heitið því að hella peningum í liðið til að styrkja leikmannahópinn.
Eins og er hafa Nets góðan grunn af hæfileikaríkum en lítt reyndum leikmönnum, t.d. Brook Lopez, Devin Harris, Terrence Williams, Courtney Lee og Yi Jinlian, að ekki sé minnst á þriðja valrétt í nýliðavalinu, og svo eiga þeir líka mjög gott rými undir launaþakinu einmitt þegar margir af bestu leikmönnum deildarinnar eru með lausan samning. Hefur nafn LeBron James að sjálfsögðu verið nefnt í því samhengi, en þeir munu nær örugglega hreppa einn af stærri bitunum.
Johnson fær það verkefni að hamra liðið saman og velja nýja leikmenn, en hann var áður þjálfari Dallas Mavericks í rúmlega þrjú ár, þar sem hann komst í úrslitin árið 2006, en tapaði þar fyrir Miami Heat.
Ekki er umdeilt að Johnson kann sitt fag með tússpennann og spjaldið, en engu að síður féllu Dallas úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar næstu tvö árin og Johnson mátti taka pokann sinn.
Spennandi verður að sjá hvernig fer hjá Johnson og ekki síst hvernig hópurinn verður hjá Nets í haust.



