16:55
{mosimage}
(Oddur Jóhannsson starfsmaður KKÍ hefur góðar gætur á skálinni)
Þegar bikarinn í körfu fer af stað þá má alltaf gera ráð fyrir spennu, dramatík og skálinni. Það eru fáir sem vita að síðustu 18 ár hefur ávallt verið dregið úr sömu skálinni og er hún órjúfanlegur þáttur í bikarkeppninni. Skálin sem rataði fyrir slysni inn á skrifstofu KKÍ fyrir 18 árum hefur verið sumum félögum gjöful á meðan önnur hafa ekki notið góðvildar hennar.
Skál þessi rataði til landsteinanna árið 1989 en þá kom hún til Íslands með A-landsliði karla sem hafði verið að keppa á Promotion Cup. Samkvæmt heimildum greinarhöfundar þá kom það í hlut Fals Harðassonar, fyrrverandi leikmanns Keflavíkur, að taka hana heim. Að loknu móti var íslenska liðið leyst út með gjöfum og í hlut Íslands kom þessi glæsilega skál.
Íslendingarnir voru ekkert alltof æstir að ferðast með hana heim enda er ekki svo auðvelt að fara með svona grip milli landa í flugvél. Hún tekur mikið pláss og er erfið í hendi þegar búið er að sækja ferðatöskurnar. Þrátt fyrir það lagði Falur Harðarson mikið á sig og kom henni til Íslands og einhvern veginn rataði hún niður á skrifstofu KKÍ. Síðan þá hefur verið dregið úr henni í bikarkeppni KKÍ og hefur skálin ekki misst af einum einasta drætti. Í dag hvílir mikil ábyrgð á herðum starfsmanna KKÍ að kom henni í heilu lagi á áfangastað þegar dregið er í Lýsingarbikarnum en ávallt er dregið fjarri heimavígstöðvum KKÍ.
{mosimage}
(Skálin góða)



