spot_img
HomeFréttirAusturdeildin í NBA verður á suðupunkti í vetur

Austurdeildin í NBA verður á suðupunkti í vetur

Allir sem fylgjast með körfubolta vita að Miami Heat eru NBA meistarar í körfubolta. Allir sem fylgust með úrslitakeppninni í vor vita það líka að tvö lið veittu meisturunum harða samkeppni á leið sinni í úrslitaviðureignina gegn San Antonio Spurs. Þau mæta nú enn hungraðri til leiks og þriðja liðið hefur nú smeygt sér inn bakdyrameginn í sumar.
 
Lemstraðir og fámenntir Chicago Bulls liðar, án Derrick Rose stórstjörnu sinnar, stríddu meisturunum mikið og opinberuðu marga veikleika í kerfum Miami Heat. Veikleikar sem næstu mótherjar Heat, Indiana Pacers nýttu sér hið ítrasta og neyddu meistarana til að spila upp á líf og dauða í 7. leik úrslitaviðureignar austurdeildarinnar.
 
Heat unnu þennan hreina úrslitaleik frekar auðveldlega og skrifast sá ósigur að einhverju leyti á þreytu bestu manna Pacers, en allir byrjunarliðsmenn Pacers spiluðu yfir 35 mínútur í leik í úrslitakeppninni. Paul George, besti maður Indiana liðsins lék yfir 41 mínútu í leik í keppninni.
 
Bæði þessi lið munu nú koma sterkari en áður til baka og gera bæði tilkall til austurstrandarmeistaratitilsins.
 
Chicago Bulls hafa látið lítið á sér bera á leikmannamarkaði í sumar og er það einna helst þá Mike Dunleavy jr. sem kemur inn með sín þriggja stiga skot og varnarleik, en Bulls misstu hins vegar frá sér Marco Belinelli. Vonir manna bindast einna helst við endurkomu Derrick Rose frá krossbandaslitum sem hann varð fyrir í úrslitakeppninni 2012. Það hefur farið lítið fyrir Rose inni á körfuboltavellinum svo ekki er alveg vitað hvort eitthvað hafi dregið úr færni hans og sprengikrafti. Körfuspekingar vestanhafs hafa hins vegar fullyrt að komi Rose sami maður til baka og hann var fyrir meiðslin og að hann haldist sem slíkur út tímabilið, sé þetta lið að gera réttmætt tilkall til krúnunnar í austri.
 
Indiana Pacers hafa skoðað síðustu úrslitakeppni í þaula og reynt eftir fremsta megni að fylla í þær glufur sem voru á liðinu á seinustu leiktíð. Larry Bird snéri aftur til starfa í stjórnendateymi liðsins í sumar og hófst strax handa við að hnýta lausa enda áður en hann fór á leikmannamarkaðinn. Pacers framlengdu við David West sem var mjög drjúgur í Pacers-Heat seríunni í úrslitum austursins. Því næst sömdu þeir við CJ Watson og Chris Copeland og sömdu svo um skipti við Phoenix Suns til að ná í Luis Scola. Þessi viðbót á bekkinn á eftir að skila sér þegar komið er djúpt inn í úrslitakeppnina. Svo má heldur ekki gleyma að Danny Granger verður klár í slaginn aftur eftir hnjámeiðsl og banvænn fyrir utan þriggja stiga línuna. Varnarleikur Pacers hefur verið þeirra helsta vopn undanfarið en sóknarleikur þeirra mjög einsleitur. Viðbót þessara leikmanna mun klárlega bæta þar um.
 
Eigandi Brooklyn Nets, Mikhail Prokhorov sagði þegar hann keypti liðið árið 2010 að hann myndi gera þá að meisturum innan 5 ára. Þá var hlegið að honum en nú þremur árum síðar er Nets liðið búið að gersamlega umbreytast úr liði sem skrapaði botninn ár eftir ár, yfir í stjörnum prýtt lið sem spekingar vestan hafs segja jafnvel geta ógnað meisturunum. Eftir skipti við Boston Celtics um síðustu mánaðamót höfðu Nets fengið Kevin Garnett, Paul Pierce og Jason Terry til liðs við sig. Allt leikmenn sem hafa fengið eldskýrn í úrslitum og unnið. Eitthvað sem hafði vantað sárlega í liðið. Nets höfðu einnig tryggt áframhaldandi samning við Andray Blatche fyrr á síðasta tímabili. Prokhorov tókst einnig að sannfæra landa sinn Andrei Kirilenko að hafna $10 milljón per ár tilboði frá Minnesota Timberwolves og ganga til liðs við Nets fyrir aðeins $3 milljónir fyrir tvö ár. Engum sögum fer hins vegar af því hvort samningur þeirra feli í sér aðra greiðslu inn á reikning móður hans í Rússlandi, en aðrir eigendur í deildinni standa fastir á því að ekki sé allt með felldu í þessum viðskiptum.
 
Engu að síður eru Brooklyn Nets með byrjunarlið sem gæti verið á þessa leið: Deron Williams, Joe Johnson, Brook Lopez, Kevin Garnett og Paul Pierce. Á bekknum myndu svo sitja Andray Blatche, Andrei Kirilenko, Jason Terry, Reggie Evans, Mirza Teletovic og fleiri. Á pappírunum er þetta lið nánast ólöglegt af hæfileikum einum en allt veltur þetta á nýliðanum á hliðarlínunni, Jason Kidd og hversu vel honum tekst að fá þessar stjörnur til að spila sem heild. Annars munu einhverjir hausar eflaust fjúka að hætti rússnesku mafíunnar þar sem launakostnaður Nets liðsins er nú vel yfir $180 milljónum með launum leikmanna og refsiskatti – hæsti í sögu deildarinnar.
 
Meistararnir sjálfir, Miami Heat hafa haft hægt um sig á leikmannamarkaði í sumar. Tryggðu sér þjónustu Chris “Birdman” Andersen út næsta tímabil sem var skynsamlega gert þar sem hann var mikill áhrifavaldur á liðið í úrslitakeppninni. Andersen var t.d. annar á eftir LeBron James í Win Shares per 48 mín yfir alla í Miami Heat liðinu með 0,207. Heat losuðu sig við Mike Miller með amnesty-klásúlunni og spöruðu sér kostnað við refsiskatt næstu árin og losuðu um launaþakið. Miami Heat eru hins vegar eitt af þeim liðum sem eru að íhuga að taka áhættuna á hrakfallabálknum Greg Oden sem hefur aðeins leikið 82 NBA leiki síðan hann var valinn nr. 1 af Portland Trail Blazers árið 2007. Enginn veit hvort Greg Oden eigi eftir svo mikið einn leik í sér og hvað þá heilt tímabil. Í þessum 82 leikjum sem hann lék með Portland safnaði hann upp 6,8 Win Shares (0,180 per 48 mín) en því til samanburðar halaði Anthony Davis, nýliði New Orleans Hornets (nú Pelicans) í fyrra inn 6,1 Win Shares í 64 leikjum (0,159 per 48 mín). Ef eitthvað er að marka þá tölfræði þá getur (eða gat) drengurinn spilað körfubolta – fái hann frið fyrir meiðslum. 50% af því sem hann var er samt betra en t.d. Joel Anthony.
 
Takist þeim að landa heilbrigðum Greg Oden sem getur spilað fyrir þá heilt tímabil og alla úrslitakeppnina eru Miami Heat svo gott sem búnir að tryggja sinn þriðja NBA titil á jafn mörgum árum. Stærð og fráköst er það sem hefur vantar í Heat liðið í ansi langan tíma og neytt þá til að spila þessa orkufreku gildru-vörn (e. trapping defence) sem Tony Parker og Spurs léku sér að oft á tíðum í úrslitunum. Heilsa Dwyane Wade mun einnig spila stórt hlutverk, en hún var heldur ekki upp á marga fiska á síðasta leiktímabili.
 
Austrið varð skyndilega mun áhugaverðara að fylgjast með á komandi leiktíð.
Fréttir
- Auglýsing -