,,Við sýndum það í kvöld og með síðasta leik okkar að við eigum heima í efri hluta þessarar keppni. Ég tel mitt lið eiga alla möguleika í hin þrjú liðin sem eru í efri hlutanum. Þetta var frábær sigur hér í kvöld og vörn okkar er svo sannarlega að smella. Ég er í þessu til að vinna og það er engin launung að mig langar að vinna alla titla sem í boði eru," sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Keflavíkur eftir leik.
Auðvelt hjá Keflavík
Það voru Keflavíkurstúlkur sem voru hungraðari í sæti A riðils í kvöld þegar þær tóku á móti Haukum í Toyotahöllinni. 85-65 sigur þeirra var verðskuldaður og höfðu heimastúlkur frumkvæðið nánast allan leikinn.
Keflavík mættu til leiks töluvert grimmari til leiks og náðu strax 10 stiga forskoti. En Haukastúlkur sýndu fína takta og komust fljótlega aftur inn í leikinn og voru aðeins 2 stig sem skildu liðinn eftir fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta settu svo heimastúlkur í fluggír. Varnarleikur þeirra hertist til muna og gamla tuggan um að með góðum varnarleik fylgir auðveldur sóknarleikur sannaði sig enn og aftur. Stórskyttan Kristi Smith hóf skothríð á körfu gestanna og það með ágætum. 18 stiga munur skildu liðin í hálfleik.
Hálfleiksræðan hjá Henning Henningsyni þjálfara Hauka hefur verið hárbeitt. Því allt annað Haukalið gekk þar til leiks. Þar má helst nefna Heather Ezell sem svo sannarlega fór að láta taka til sín sóknarmegin. Stúlkan sem hafði aðeins skorað 6 stig í hálfleik var komin með 18 stig á nokkrum mínútum og af þeim voru tvær bombur langt utan af velli. Minnst náðu gestirnir muninn niður í 9 stig og voru þær á hörkuskriði þegar flautað var til leiks í þriðja leikhluta.
En þessa orrahríð stóðu Keflavíkurstúlkur af sér. Þær héldu einfaldlega áfram að spila grimma vörn sem að lokum varð Haukastúlkum ofaukið. Mikið púst fór einnig hjá gestunum í að ná þessum mun niður og undir lokinn virtust þær einfaldlega vera komnar á síðustu dropana af orkunni. Kristi Smith var stigahæst heimastúlkna með 28 stig ásamt því stal hún 7 boltum. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig stórleik með 15 stig , 12 fráköst og 7 stoðsendingar. Gamla brýnið Birna Valgarðsdóttir sýndi baráttu að venju og skilaði í hús 19 stigum og sendi 8 stoðsendingar. Hjá gestunum var Heather Ezell þeirra besti maður með 24 stig en náði ekki að skila þrefaldri tvennu að þessu sinni líkt og í þremur síðustu leikjum. Næst henni kom Kiki Lund með 16 stig.
Fréttir



