Keflavík kom í heimsókn á Sauðárkrók í kvöld til að etja kappi við Tindastól, ríkjandi Fyrirtækjameistara, í næst síðasta leik A-riðils Fyrirtækjabikarsins. Úrslitin í riðlinum voru nokkuð ráðin fyrir leikinn þar sem Keflvíkingar voru búnir að tryggja sér farseðil áfram en 1. deildar lið Tindastóls eru þó búnir að koma örlítið á óvart með góðum sigri á Íslandsmeisturum Grindavíkur á Sauðárkróki og öflugum leik í Grindavík sem endaði með framlengingu og eins stigs sigri Grindavíkur.
Sérstaklega þegar litið er til þess að Tindastólsliðið er algjörlega stökkbreytt frá síðustu árum þar sem allir leikmenn yfir 18 ára eru horfnir á braut fyrir utan Helgana Frey og Rafn og við keflinu er búið að taka fullt af guttum sem eiga einungis örfáar mínútur í meistaraflokki . Forráðamenn Tindastóls voru þó ansi sniðugir í sumar þegar þeir spiluðu örlítið á hina stórgáfulega útlendingareglu og fengu til liðsins Íslendinginn og reynsluboltann Darrell nokkurn Flake til að fylla í skarð Þrastar sem fór til Keflavíkur, Hreinsa sem fór á Egilsstaði og Svavars sem fór að ditta að húsinu og sinna konu og börnum. En Flake ásamt Antoine Proctor, örvhentum bakverði frá Montana, eiga að sjá til þess að Tindastólsliðið stoppi stutt við í 1.deildinni í vetur.
Tindastólsliðið byrjaði líka leikinn vel í kvöld. Leiddu langtímum saman í fyrri hálfleik og voru ekki síðri en Keflavíkurliðið sem tók þó pínu sprett fyrir leikhlé og náði 8 stiga forskoti í hálfleik 36-44. Forskotinu máttu þeir hins vegar algjörlega þakka Darrel Lewis sem var með 22 stig í hálfeik og Tindastólsliðið réð illa við kappann.
Eitthvað hefur Andy Johnston þjálfari Keflavíkur skerpt á sínum mönnum í hlénu því í byrjun seinni hálfleiks kom allt annað Keflavíkurlið inn á. Þröstur Jóhanns sem hafði lítið spilað í fyrri hálfleik kom inn á móti sínum gömlu félögum með mikil læti og 2-3 svæðisvörn Keflavíkar sem hafði verið hundléleg allan fyrri hálfleikinn var allt í einu orðin óyfirstíganleg hindrun fyrir Tindastólsstrákana. Keflvíkingum tókst að ná nokkrum hröðum sóknum og með í kaupbæti fylgdu allskonar þriggja stiga körfur allstaðar að og hið unga lið Tindastóls bognaði og bognaði með hverri körfunni þangað til þeir brotnuðu endanlega.
Keflvíkingar skoruðu 23 stig í röð og náðu þannig 30 stiga forskoti í leiknum á styttri tíma en tekur að kaupa sér pulsu með öllu. Leikurinn því búinn eftir nokkrar mínútur af seinni hálfleik og það sem eftir lifði leiks fór í pirring út í dómara hjá Tindastólsmönnum og ágætis æfingu hjá báðum liðum þar sem allir leikmenn fengu að spreyta sig.
Það er erfitt að meta styrkleika beggja liða eftir svona leik. Keflavíkurliðið var án Magga Gunnars og fleiri og voru vissulega að spila á móti 1. deildar liði sem ætti að sjálfsögðu að vera skyldusigur en höfðu þrátt fyrir það full lítið fyrir sigrinum, svona miðað við allt og allt. Bestir í þeirra liðið voru Darrel Lewis í fyrri hálfleik og síðan Þröstur í þeim seinni. Þá voru Valur Orri og Guðmundur Jóns að setja niður skyldustig og Gunnar Ólafsson var að hitta ansi vel fyrir utan bogann með hörku stökkskotum sem sjást allt of sjaldan á Klakanum.
Í liði Tindastóls var Helgi Rafn að setja niður sín skot undir körfunni og Ingvi Rafn Ingvarsson setti nokkra þrista. Antoine Proctor og Flake hefðu mátt hitta betur en besti maður Tindastóls var Pétur Birgisson sem átti fínan leik báðu megin vallarins og er þrusu efni. Það er ljóst að Pétur og Ingvi Rafn þurfa að taka að sér ansi stórt hlutverk fyrir Tindastólsliðið ef vel á að takast til í vetur en það er langt síðan ungir strákar hafa fengið slíka ábyrgð í Sauðárkróki og það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig Tindastól gengur að endurheimta sæti sitt meðal þeirra bestu í vetur með þennan nýja kjarna.
Umfjöllun/BIÓ



