spot_img
HomeFréttirAuðveldur sigur Stjörnumanna

Auðveldur sigur Stjörnumanna

Stjörnumenn tóku á móti nýliðum Fjölnismanna í fyrsta leik þessara liða í úrvalsdeildinni þetta tímabilið.  Stjörnumenn áttu í engum vandræðum með gestina og skiluðu tveimur stigum í hús, 90-67.

Bæði lið voru nokkuð lengi í gang og nokkur haustbragur á leik liðanna í byrjun.  Það leið þó ekki á löngu þar til heimamenn tóku völdin og komust í 10-3 eftir um fjögurra mínútna leik.  Leikur Fjölnis var nokkuð ungæðingslegur á köflum, enda nokkuð margir leikmenn Fjölnis vart enn slitið barnsskónum.   Góður leikkafli Stjörnunnar það sem eftir lifði fyrsta leikhluta skilaði þeim 17 stiga forystu, 29-12 við leikhlutaskiptin.  Sterk byrjun Stjörnunnar í byrjun annars leikhluta kom bilinu í 21 stig, 34-13 og ekkert sem benti til annars en að mjög öruggur heimasigur yrði reyndin.  Fjölnismenn voru ekki á því og brugðu á það ráð að taka afspyrnuslakan Christopher Smith útaf, en það virkaði eins og vítamínsprauta á gestina, sem settu 14 stig gegn engu og minnkuðu muninn í 7 stig, 34-27.  Við það vöknuðu Stjörnumenn og juku muninn aftur og fóru inn í hálfleik 14 stigum yfir, 51-37.  Heldur bragðdaufum fyrri hálfleik lauk þar með og það stóð helst upp úr hversu afburðarslakur Christopher Smith var, en hann afrekaði það helst að klikka úr öllum sex skotum sínum, fá þrisvar sinnum dæmdar á sig þrjár sekúndur og tapa boltanum þrisvar.

Það var fátt um fína drætti í seinni hálfleik, Stjörnumenn höluðu inn sigrinum nokkuð vandræðalítið og svöruðu öllum tilraunum Fjölnis til að minnka muninn.  Fannar Helgason var manna bestur á vellinum beggja megin vallarins, hann var fastur fyrir í vörninni og sterkur sóknarlega með sín 24 stig og 12 fráköst.  Jovan Zdravevski og Justin Shouse léku einnig mjög vel, en þessir þrír sáu fyrst og fremst til þess að gestirnir áttu aldrei möguleika.  Teitur Örlyggsson þjálfari Stjörnumanna var að vonum kátur í leikslok: „Við vorum með tvo sigurleiki fyrir áramót í fyrra og núna erum vi komnir með einn!“  Stjörnuliðið lítur vel út miðað við fyrsta leik tímabilsins, „þetta var nokkurnvegin eins og ég bjóst við, við byrjuðum vel en slökuðum svo á eftir þessa góðu byrjun.  Ég er bara sáttur við strákana og ekki síst að bekkurinn kom sterkur inn.“

Fjölnismenn þurfa að sýna talsvert betri leik en það sem þeir buðu upp á í kvöld ef þeir ætla að hala inn stigum.  Ægir Þór Steinarsson var þeirra besti maður, en auk hans var eitthvað líf í Magna Hafsteinssyni og Tómasi Tómassyni.  Ægir Þór var ekki hress í leikslok: „Við byrjuðum bara ótrúlega flatir og misstum þá frá okkur í byrjun og vorum svo að elta eftir það.  Við vorum samt að skapa fullt af færum en vorum bara ekki að nýta þau og vorum líka ótrúlega linir í fráköstunum, það er eitthvað sem vi ð bara verðurm að laga.  Við erum miklu betri en þetta og munum sýna það í vetur, við erum alltaf jákvæðir í Grafarvoginum.“

Snorri Örn

Fréttir
- Auglýsing -