spot_img
HomeFréttirAuðveldur Keflavíkursigur (Umfjöllun)

Auðveldur Keflavíkursigur (Umfjöllun)

22:37

{mosimage}

Suðurnesjamenn sóttu Krókinn heim í kvöld og mættu þar Tindastóli. Snemma varð ljóst að þeir myndu fara með sigur af hólmi, því lið heimamanna var hálf meðvitundarlaust mest allan leikinn. Fyrir gestgjafana byrjuðu Helgi Freyr, Ísak, Friðrik, Svavar og Pugh. Hinu megin voru það Gunnar Einarsson, Jón Nordal, Sverrir, Hörður og Sigurður sem byrjuðu fyrir Keflavík.

Þeir byrjuðu 0 – 7 og juku muninn jafnt og þétt og skoruðu alltaf tvö stig fyrir hvert eitt stig Tindastóls. Fór svo að fyrsti leikhluti endaði 13 – 27. Svavar og Pugh sýndu smá lífsmark, en hjá Keflavík var Jón kominn með 9 stig.

Stólarnir röknuðu aðeins úr rotinu í upphafi annars leikhluta og löguðu stöðuna í 22 – 33. Eftir það gekk fátt upp og Keflavík náði aftur að auka við forskotið fram að hléi. Staðan í hálfleik var 25 – 44. Keflavík beitti pressuvörn sem Stólarnir réðu illa við og töpuðu þeir mörgum boltum, einnig var sóknarleikurinn stirður og mikið andleysið virðist hrjá liðið þessa dagana. Keflvíkingar voru hins vegar greinilega komnir til að selja sig dýrt til að halda fjórða sætinu í deildinni.

Lítið skánaði leikur heimaliðsins eftir hálfleikinn og áfram breikkaði bilið. Eftir 30 mínútna leik var staðan orðin 39 – 67 og útlit fyrir niðurlægingu af hálfu Keflavíkur. Stólarnir sýndu smá karakter í fjórða fjórðungi og þegar þrjár mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í 16 stig í stöðunni 60 – 76. Keflvíkingar kláruðu hinsvegar leikinn af krafti og skoruðu 15 – 3 á lokakaflanum svo úr varð 28 stiga sigur þeirra, 63 – 91. Fátt annað en neikvætt er hægt að segja um leik Tindastóls í kvöld og best að láta það ógert. Skástur heimamanna var Rikki með 17 stig og þokkalega nýtingu, næstur kom Helgi Freyr með 10 stig. Svavar var með 9 fráköst og átta stig. Alphonso Pugh meiddist fljótlega í síðari hálfleik og kom ekkert við sigur eftir það.  Hjá Keflavík var Hörður í sérflokki með 30 stig og 6 stolna bolta. Næstir honum komu Gunnar Einarsson og Jón Nordal með 13 stig. Jón var með 8 fráköst að auki. Keflavík hafði frekar lítið fyrir sigrinum í kvöld og til gamans má geta þess að framlag Tindastóls í leiknum reiknaðist 50 á móti 109 hjá gestunum í Keflavík. Þeir halda því áfram fjórða sætinu í deildinni, en Tindastóll er í 9. sætinu eins og fyrir umferðina. Þeir geta því enn náð inn í úrslitakeppnina með sigri á Breiðabliki á sunnudaginn, en mikið þarf að breytast til þess í leik liðsins.

Tölfræði leiksins

Fleiri myndir má sjá á skagafjordur.com

Jóhann Sigmarsson

Mynd: www.skagafjordur.com

 

Fréttir
- Auglýsing -