spot_img
HomeFréttirAuður: Við vildum fara alla leið

Auður: Við vildum fara alla leið

 
,,Það var kannski smá stress í okkur enda erum við nýjar í þessu og stressið gæti hafa verið að stríða okkur,“ sagði Auður Jónsdóttir aldursforseti Njarðvíkurliðsins sem í kvöld sá á eftir Íslandsmeistaratitlinum upp í hendur granna sinna í Keflavík.
Njarðvík varð fyrst liða í sögunni síðan nýtt keppnisfyrirkomulag í úrvalsdeild kvenna var tekið í gagnið til að komast í úrslit úr B-riðli. Átti Auður von á viðlíka árangri þegar grænar voru að púla á undirbúningstímabilinu?
 
,,Já já, markmið okkar var að vera í fjórum efstu sætunum en við lentum í fimmta sæti og unnum úr því með stæl. Við lögðum svo Hamar í undanúrslitum sem var frábært og svo þegar maður er kominn í úrslit þá getur maður ekki verið sáttur við silfrið. Þegar hingað er komið þá vill maður náttúrulega fara alla leið,“ sagði Auður en voru Keflavíkurkonur einfaldlega númeri of stórar að þessu sinni?
 
,,Keflavík er með hörkulið og vanar því að vera í þessum sporum. Við erum samt með ungar stelpur sem eru að koma upp og eiga framtíðina fyrir sér,“ sagði Auður og gaf það út eftir oddaleikinn gegn Hamri á dögunum að hún myndi hætta eftir þessa leiktíð. Stendur hún við þá fullyrðingu?
 
,,Ég ætlaði auðvitað að reyna að klára þetta en maður fær ekki allt sem maður vill í lífinu,“ sagði Auður, ætlar hún þá að gera aðra atlögu að titlinum að ári? ,,Nei… en maður á reyndar aldrei að segja aldrei.“
 
 
Fréttir
- Auglýsing -