Bandaríkjamaðurinn Shawn Atupem leikur ekki meira með KR á þessu tímabili og verður því ekki með röndóttum á eftir þegar KR-ingar heimsækja Snæfell í Domino´s deild karla. Þetta staðfesti Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR í samtali við Karfan.is.
Atupem vildi sjálfur fá sig lausan undan samningnum og mun vera búinn að semja við annað lið í Evrópu. Reiðarslag fyrir KR-inga fyrir þennan stórleik í kvöld en Atupem var með 23 stig og 5,5 fráköst að meðaltali í þeim tveimur leikjum sem hann lék fyrir KR.
„Þetta voru auðvitað mikil vonbrigði að missa svona góðan leikmann sem einnig small vel inn í liðið. Leit er hafin að öðrum leikmanni en við erum hvergi bangnir og vonandi kemur bara nýr maður von bráðar,“ sagði Finnur Freyr í snörpu samtali við Karfan.is.
Martin Hermannsson er svo tæpur fyrir leikinn í kvöld vegna ökklameiðsla sem hann varð fyrir í leiknum gegn ÍR á dögunum. Martin sagði við Karfan.is í gær að hann myndi taka upphitun með KR í kvöld og sjá svo til hvernig hann yrði.
Mynd/ Axel Finnur – Shawn Atupem hefur leikið sinn síðasta leik á Íslandi.



