8:57
{mosimage}
Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.
Í síðustu viku fjallaði ég um troðslur og stundum slæmar afleiðingar þeirra. Í þessarri viku langar mig að leggja litla þraut fyrir lesendur körfunnar.
Körfuknattleikur er leikinn af sömu ástríðu um allan heim og sömu reglur gilda alls staðar nema í Bandaríkjunum. Reglur leiksins eru í senn styrkur hans og veikleiki. Þegar ég met reglurnar til styrkleika á ég við að þær eru nákvæmar og útskýrðar í þaula. Þegar ég segi að reglurnar séu hluti af veikleikum leiksins á ég við að þær séu margar og oft afar flóknar. Þannig gerist það í hverri viku að að áhorfendur öskra sig hása þar sem þeim finnst eitthvert atvik kalla á aðrar aðgerðir en dómararnir grípa til, þeir bara vita ekki betur.
Ein er sú list sem dómarar iðka, en það er að leysa snúin regluvandamál, við köllum þau “keis”. Nú höfum við dómarar leyst nýlegt keis í okkar hópi og bið ég dómara að halda lausninni fyrst um sinn fyrir sig, því lausnin kemur í næstu viku.
Ég var áhorfandi á leik UMFN og Þórs Ak. í Subway bikarnum um daginn ásamt þremur öðrum dómurum, en eins og lög gera ráð fyrir þá voru tveir félagar okkar að dæma. Upp kom atvik í leiknum sem enginn okkar var alveg viss um hvað væri hið eina rétta að gera. Ég ætla að lýsa atvikinu eins og það blasti við mér, en það er ekki víst að Hrafn vinur minn Kristjánsson sé endilega sammála mér um hvað gerðist en í þessarri dæmisögu munum við halda okkur við mína útgáfu.
Keisið er svona:
Cedric Isom leikmaður Þórs reyndi 3ja stiga stökkskot undir lok annars fjórðungs (ca. 0,1 – 0,2 sek fyrir lok hans)
Varnarmaður frá Njarðvík reyndi að verja skot hans en tókst það ekki
Boltinn hafði sannarlega yfirgefið hendi skotmanns þegar klukkan hringdi til merkis um lok leikhlutans
Boltinn og sóknarleikmaðurinn voru í loftinu þegar klukkan hringdi
Áður en Isom lenti á gólfinu aftur, lenti varnarmaðurinn á honum á þann hátt að undir venjulegum kringumstæðum væri dæmd persónuvilla á varnarleikmanninn. Þetta gerðist 0,2 – 0,3 sek eftir að leiktímanum lauk.
Allt þetta gerðist á ca. ½ sekúndu, en körfuknattleikur er afar nákvæm íþrótt og hvert sekúndubrot mikilvægt.
Dómarar leiksins voru Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson og þeir dæmdu ekki brot á varnarmann UMFN og Hrafn þjálfari Þórs var ekki sáttur.
Til að leysa svona keis er mikilvægt að nota ekki bara brjóstvitið heldur kafa ofan í reglurnar en þær má finna hér.
Til að koma ykkur á sporið bendi ég ykkur á að lesa greinar 8, 10 og 15 en aðrar greinar koma líka við sögu sem og andi og ætlun reglnanna.
Ég ætla að gera tilraun og gera úr þessu getraun. Spurningin er hvað áttu dómararnir að gera? og af hverju? Gott væri ef vísað væri í reglur, en annars er nóg að færa rök fyrir máli sínu. Svör ykkar sendið þið til mín og ég birti lausnina á þriðjudaginn 30. desember hér á körfunni ásamt nöfnum allra sem skiluðu réttu rökstuddu svari. Virkir dómarar eru ekki gjaldgengir, en eitt rétt svar mun hljóta óvæntan glaðning í verðlaun.
Þið sendið rökstutt svar á netfangið [email protected] ásamt fullu nafni, kennitölu og nafni liðs sem þið spilið með eða styðjið. Ég mun ekki svara neinum spurningum né gefa fleiri vísbendingar, endilega takið þátt í þessum lauflétta leik.
Samantekt:
Körfuknattleikur er leikinn eftir sömu reglum um allan heim nema í Bandaríkjunum.
Reglurnar eru í senn styrkleikar og veikleikar leiksins.
Dómarar þurfa stundum að leysa flókin vandamál á sekúndubroti en undirbúa sig með því að leysa ímynduð eða raunveruleg “keis” í frístundum.
Sendi öllu körfuboltafólki mínar bestu jólakveðjur.
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari
Fyrri skrif Kristins
Af hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?
Snertingar milli varnar- og sóknarmanns
Mynd: Hjörtur Guðbjartsson



