spot_img
HomeFréttirÁtta lið í Iceland Express deild kvenna á næstu leiktíð

Átta lið í Iceland Express deild kvenna á næstu leiktíð

14:35 

{mosimage}

 

Samþykkt hefur verið á ársþingi KKÍ að átta lið muni skipa Iceland Express deild kvenna á næstu leiktíð. Í ár voru sex lið í deildinni en verða átta á næstu leiktíð og því er um tveggja liða fjölgun að ræða.

 

Þjálfararnir Ágúst Björgvinsson og Yngvi Gunnlaugsson lögðu fram tillöguna sem samþykkt var og verður málum háttað þannig í Iceland Express deild kvenna á næstu leiktíð að í fyrstu skal leikin tvöföld umferð. Að lokinni tvöfaldri umferð er liðunum átta skipt í tvo fjögurra liða riðla. Fjögur efstu liðin eftir tvöfalda umferð verða saman í riðlum og síðan fjögur neðstu. Innan riðlanna verður síðan leikin tvöföld umferð og að aflokinni deildarkeppni skal það félag sem lendir í efsta sæti efri riðilsins hljóta deildarmeistaratitil.

 

Einnig var samþykkt nafnabreyting á deildunum og mun gamla 2. deild kvenna nú heita 1. deild kvenna. Neðsta lið neðri riðils fellur í 1. deild kvenna og tekur efsta lið 1. deildar sæti þess að ári.  Úrslitakeppninni á næstu leiktíð í Iceland Express deild kvenna verður því þannig háttað að öll liðin í efri riðlinum taka þátt í úrslitakeppninni og tvö efstu í neðri riðlinum og því um sex liða úrslitakeppni að ræða en í ár og síðustu ár hefur ávallt verið keppt í fjögurra liða úrslitakeppni.

 

Í greinargerð með tillögunni segir að í ljósi þess að framfarirnar í kvennakörfunni hafi verið jafn miklar og raun ber vitni sé nauðsynlegt að taka næsta skref fram á við og það á ári kvennakörfunnar og fjölga liðum í efstu deild kvenna. Sem úr varð.

 

Af þessu má ráða að Breiðablik heldur sæti sínu í deildinni og Fjölnir og KR bætast við sem ný lið í átta liða deildinni. Fjölnir sigraði 2. deild kvenna en KR hafnaði í 2. sæti.

 

 [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -