spot_img
HomeFréttirAþena fær ekki að leika heimaleiki sína á Álftanesi "Ekki liggur fyrir...

Aþena fær ekki að leika heimaleiki sína á Álftanesi “Ekki liggur fyrir nákvæm skýring á óvild körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar”

Garðabær hefur dregið til baka leyfi Aþenu fyrir því að fá að leika heimaleiki sína í fyrstu deild kvenna í vetur á Álftanesi samkvæmt fréttatilkynningu félagsins. Samkvæmt henni mun hafa verið veitt vilyrði fyrir því leyfi af íþróttafulltrúa bæjarins, en það síðan dregið til baka vegna andstöðu stjórnar Stjörnunnar. Tilkynninguna má í heild lesa hér fyrir neðan, en í henni er farið yfir sögu málsins, þar sem að félagið sjálft fer yfir málsatvik síðustu mánuði.

Aþena, sem staðsett er innan Reykjavíkur, nánar tiltekið á Kjalarnesi, skráði lið sitt í fyrstu deild kvenna fyrir komandi tímabil og er fyrsti leikur þeirra í deild þann 2. október heima gegn liði Vestra.

Tilkynning:

Meistaraflokksliði Aþenu meinað að spila á Álftanesi

Í fyrsta skipti í sögu félagsins sendir Aþena meistaraflokkslið til keppni á Íslandsmóti í körfuknattleik kvenna, þar sem liðið mun spila í 1. deild á komandi vetri.

Undanfarin tvö ár hefur Aþena æft og spilað á Kjalarnesi í Íþróttamiðstöðinni á Klébergi, en nú er svo komið að aðstaðan dugar ekki til. Ævintýralegur árangur, vöxtur félagsins og þátttaka í meistaraflokki gerir allt aðrar kröfur. Á Klébergi er ekki aðstaða fyrir áhorfendur og völlurinn er of lítill sem keppnisvöllur í meistaraflokki. Það var því ljóst strax og ákvörðun um lið í 1. deild kvenna var tekin að liðið þyrfti að finna sér löglegan heimavöll. Aþena á aðild að Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem sér um úthlutun æfinga- og keppnisaðstöðu fyrir félög innan borgarinnar og þess farið var á leit við bandalagið að finna tíma fyrir leiki meistaraflokks í íþróttahúsi í Reykjavík.

ÍBR tókst ekki að finna tíma innan Reykjavíkur fyrir 11 heimaleiki félagsins, sem spila átti kl. 17:00 á laugardagskvöldum og leigði að lokum tíma í Íþróttamiðstöð Álftaness í Garðabæ. Staðfesting þess efnis barst með bréfi frá íþróttafulltrúa Garðabæjar þann 16. júní s.l. Strax í kjölfarið tilkynnti Aþena heimavöll félagsins til KKÍ og Álftanes var staðfest í leikjaniðurröðun sambandsins fyrir komandi leiktímabil.

Skjótt skipast veður í lofti

Daginn eftir að frétt birtist á mbl.is þann 5. júlí, um að Aþena sendi meistaraflokkslið til keppni á Íslandsmóti, fær forsvarsfólk Aþenu tilkynningu þar sem leiga á keppnisaðstöðu í Íþróttamiðstöð Álftaness er dregin til baka. Þeir sem þekkja til málsins gefa Aþenu þær skýringar að stjórnarmenn körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar hafi sett sig á móti leigu ÍBR á tímum í Íþróttamiðstöð Álftaness og farið þess á leit við bæjarskrifstofu að afturkalla aðstöðuveitingu til handa Aþenu. Ekki liggur fyrir nákvæm skýring á óvild körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar og Garðabæjar í garð Aþenu.

Leit Aþenu að heimavelli er því hafin á ný og ekki í sjónmáli að félagið fái að spila heimaleiki sína á höfuðborgarsvæðinu. Verið er að skoða möguleika Aþenu á að spila heimaleiki sína í sveitarfélögum utan höfuðborgarsvæðisins. Forsvarsmenn Aþenu vonast þó til að ekki þurfi að koma til þess, þar sem félagið, leikmenn og stuðningsmenn þeirra koma að mestu frá höfuðborgarsvæðinu.

Það er því ekkert lát á þeim hindrunum sem Aþena mætir í viðleitni félagsins til að halda úti því sem ekki er hægt að segja að sé annað en réttmæt þátttaka í íslensku íþróttastarfi.

Fréttir
- Auglýsing -