spot_img
HomeFréttirÁtakanlegir yfirburðir KR-inga

Átakanlegir yfirburðir KR-inga

Fjölnismenn heimsóttu KR-inga í 11. umferð Dominosdeildarinnar í kvöld. Heimamenn hafa sýnt yfirburði í flestum leikjum sínum til þessa og vafalaust margur Fjölnismaðurinn frekar svartsýnn á stigasöfnun í DHL-höllinni. Hinir hlutlausu vonuðust eftir því að lífið kæmi manni að þessu sinni á óvart og að spennandi leikur yrði í boði í kvöld.
 
 
Hinn stórsnjalli Craion byrjaði af miklum krafti og skoraði fyrstu 7 stig KR. Arnþór og Sims byrjuðu einnig ágætlega fyrir gestina og komust þeir yfir, 12-13 um miðbik leikhlutans. Forystan var hins vegar ekki lengi Fjölnismanna og höfðu KR-ingar 21-18 forystu eftir fyrsta fjórðung. Vonin um spennandi leik þó enn á lífi.
 
Það tók hinsvegar ekki nema um tvær mínútur fyrir heimamenn að draga úr fyrrnefndum vonum. Um miðjan leikhlutann var munurinn skriðinn yfir 10 stigin og Craion með aðstoð Darra sáu einna helst um stigaskorið. Munurinn jókst svo jafnt og þétt og Helgi, Pavel og Brilli allir í nokkuð góðu stuði. Í hálfleik var staðan 53-33 og úrslit svo gott sem ráðin eins og allir, nema kannski KR-ingar, óttuðust. Craion var með 19 stig í hálfleik og leikbrot helsta og eina leið gestanna til að stöðva hann.
 
Munurinn hélt áfram að vaxa jafnt og þétt og staðan var orðin 67-38 um miðjan þriðja leikhluta. Það er kannski hart að gagnrýna Fjölnismenn í svona vondri stöðu en þeir gerðu illt verra með mörgum aulalegum töpuðum boltum í fjórðungnum. Ef ekki hefði verið fyrir ágætan sprett Arnþórs sóknarlega undir lokin hefði munurinn verið enn meiri en staðan var 77-48 fyrir lokaleikhlutann.
 
Sims sýndi að hann hefur keppnisskap og hélt áfram að berjast þrátt fyrir allt. Hann lenti í miklum en afkáralegum glímutökum við Pavel (sem beitti rússnesku Sambo-bragði ef undirrituðum skjátlast ekki) í baráttu um boltann og jaðraði við hvílubrögð á köflum. Barátta Sims skilaði þó ekki mjög miklu og leikurinn bauð satt best að segja ekki upp á mikið fyrir augað. Þó verður að nefna skemmtilega troðslu Craion í hraðaupphlaupi. Hún kom eftir einn af fjölmörgum töpuðum boltum gestanna en þeir komu fjórir í röð á þessum tímapunkti. Það er alger óþarfi þó svo að úrslit væru löngu ráðin. Smári Hrafnsson gerði reyndar leikinn eftirminnilegan fyrir Fjölnismenn með því að setja nýtt og athyglisvert Íslandsmet (óstaðfest samt). Hann spilaði í nákvæmlega 169 sekúndur í leiknum og fékk á þeim tíma heilar fimm villur og þar með útilokun frá frekari þátttöku!
 
Svokallaðar ruslamínútur voru allmargar en KR-ingar höfðu reyndar leyft nokkrum ungum piltum að spreyta sig allmiklu fyrr í leiknum. Leiknum lauk svo (loksins) með stórum 103-62 sigri KR-inga.
 
Eflaust og eðlilega kætast KR-ingar yfir gengi sinna manna. Fyrir andstæðingana og hinn hlutlausa áhorfenda er skemmtanagildi svona leikja hins vegar alveg í lágmarki. Craion var vissulega ágætis skemmtikraftur á köflum og lauk leik með 37 stig og 17 fráköst! Pavel var með þrennu en það er bara regla hjá honum eins og allir vita.
 
Hjá gestunum bar Arnþór af með 15 stig og umtalsvert af fráköstum og stoðsendingum. Fjölnismenn geta þó kannski einna helst yljað sér við það að leiknum er lokið og önnur lið eiga eftir að láta þennan leik gleymast þegar þau lenda í hakkavélinni hræðilegu í DrepaHakkaLítillækka-höll KR-inga.
 
 
Viðtal við Finn Frey Stefánsson þjálfara KR eftir leik:
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Mynd: Jón Björn – Högni Fjalarsson spilaði í rúmar 13 mínútur í liði KR í kvöld en það er það mesta sem þessi 18 ára KR-ingur hefur sést á parketinu en röndóttir hafa eins og flestum er kunnugt sterka blöndu af eldri og reyndari leikmönnum í bland við unga bráðefnilega pilta.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -