spot_img
HomeFréttirÁtakanleg leiðindi að Hlíðarenda

Átakanleg leiðindi að Hlíðarenda

Valsmenn fengu frændur sína úr Hafnarfirði í heimsókn í 11. umferð deildarkeppninnar. Skjálfti hefur verið í Hlíðarendapiltum í vetur, unnu að vísu þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum fyrir eitthvert kraftaverk, en síðan ekki söguna meir. Liðið kvaldi áhorfendur í síðasta leik ásamt nágrönnum sínum úr Vesturbænum í hræðilegum körfuboltaleik þar sem bæði lið hefðu átt að sitja uppi með refsistig. Haukar hafa ekki verið neitt sérstaklega sannfærandi enn sem komið er en liðið á augljóslega mikið inni – t.a.m. virðist meiðsladraugurinn vera með lögheimili í Hafnarfirði.

Spádómskúlan: Kúlan hefur nákvæmlega enga trú á Valsliðinu, ekki frekar en nokkur sála í Hlíðahverfinu og þó víðar væri leitað. Haukar slátra þessu 77-95.

Byrjunarlið:  

Valur: Pavel, Ástþór, Illugi, Bracey, Alawoya

Haukar: Barja, Robinson, Flen, Kári, Gunnar

Gangur leiksins

Það var ljóst að aðeins annað liðið hefur vott af sjálfstrausti og gestirnir voru fljótt komnir í 0-9. Israel Martin hefur sennilega talað um vörn alla vikuna frá síðasta leik og Haukar gáfu heimamönnum ekki færi á að koma sér í gang. Gústi tók leikhlé er leikar stóðu 2-11 og smellti Natvélinni inn á. Það hafði ágæt áhrif, Raggi tók 5 fráköst og átti eina troðslu, en samt töpuðu Valsmenn restinni af leikhlutanum 7-10 og staðan 9-21 eftir einn.

Natvélinni gekk ekki eins vel í byrjun annars leikhluta. Fyrst fékk hún dæmda á sig sóknarvillu að ósekju að mati undirritaðs. Í næstu sókn tók Raggi sóknarfrákast og brotið var á honum svona 8 sinnum enda minnti hann á japanskt háhýsi í jarðskjálfta – engin villa var þó dæmd á Hauka en Gústi fékk hins vegar villu enda eðlilega alveg trylltur á línunni. Vandamál Vals snúa hins vegar að ýmsu öðru en Ragga og dómurum, Haukar náðu oft á tíðum að galopna vörn heimamanna og skora úr sniðskotum. Sóknarleikur Vals var á sama tíma klaufabárðalegur sem kann ekki góðri lukku að stýra gegn liði sem er sérstaklega að æfa vörn þessa dagana. Munurinn jókst hægt og bítandi, staðan í hálfleik 26-45.

Valsmenn hafa ítrekað komið til baka í vetur þó það hafi ekki skilað neinum stigum að undanförnu. Það bar lítið á endurkomu en þó rofaði örlítið til fyrir heimamenn. Bracey hafði stillt miðið í hálfleik og loksins fór eitthvað að detta. Raggi var farinn að fá villur dæmdar á gestina og jafnvel körfu góða! Kári Jóns sá hins vegar til þess að halda öruggri fjarlægð, munurinn enn umtalsverður eftir þrjá, 57-75.

Raggi minnkaði muninn í 60-75 með þriggja stiga sókn í upphafi fjórða, brotið var á Ragga jafnvel bara svolítið en dómarar leiksins horfðu nógu hátt í þetta skiptið. Þarna var jafnvel farið að heyrast aðeins í nokkrum Valsmönnum í stúkunni og allt! En gestirnir svöruðu strax fyrir sig og kláruðu þennan leik örugglega. Lokatölur 78-94 í ekki svo mjög skemmtilegum leik. Kúlan fagnar ekki einu sinni neitt að ráði þrátt fyrir óvanalega frábæra spá… 

Menn leiksins

Robinson var mjög mikið réttur maður á réttum stað í kvöld, tók 17 fráköst og skoraði 24 stig. Kári minnti svo á sig með 21 stig og 5 stoðsendingar.

Bracey var skástur heimamanna með 24 stig en hitti ekkert í fyrri hálfleik. Ástþór og Raggi voru svo þeir einu til viðbótar sem gerðu eitthvað gagn fyrir Valsmenn.

Kjarninn

Frank Aron var ekki með Val í kvöld en það er auðvitað engin afsökun. Liðið hefur spilað alveg hræðilega þetta tímabilið með og án hans. Undirritaður telur ólíklegt að Valsmenn verði Íslandsmeistarar í ár…

Haukar spiluðu góða vörn í kvöld, einkum í fyrri hálfleik. Það var eiginlega bara nóg til að vinna þennan leik. Það væri alveg fáránlegt að halda langar ræður um Haukaliðið út frá þessum leik. Það er sama staða á liðinu og hefur verið – ef liðið nær að ganga á öllum strokkum síðar á tímabilinu gæti ýmislegt gerst…

Myndasafn

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Guðlaugur Ottesen

Fréttir
- Auglýsing -