spot_img
HomeFréttirÁsta Júlía eftir fyrsta árið með Houston Baptist Huskies "Ætla út aftur...

Ásta Júlía eftir fyrsta árið með Houston Baptist Huskies “Ætla út aftur næsta tímabil og ná því að vera í lykilstöðu innan liðsins”

Fyrir tæpu ári síðan ákvað einn efnilegasti leikmaður landsins, framherjinn Ásta Júlía Grímsdóttir, að róa á önnur mið eftir að hafa unnið bæði bikar og Íslandsmeistaratitilinn með liði Vals í Dominos deild kvenna. Fór hún út í háskóla til Bandaríkjanna þar sem að Houston Baptist University varð fyrir valinu, en liðið leikur í Southland hluta efstu deildar háskólaboltans.

Ásta lék upp alla yngri flokka KR og upp í meistaraflokk, þar sem hún var svo valin besti ungi leikmaður fyrstu deildar 2016-17. Fyrir tímabilið 2017-18 skipti hún yfir í Val, þar sem án alls vafa hún skilaði sínu besta tímabili til þessa með liðinu sem vann tvöfalt á síðasta ári, en þar var hún með 9 stig og 7 fráköst að meðaltali í leik. Þá hefur hún einnig verið hluti af yngri landsliðum Íslands.

Karfan setti sig í samband við Ástu og spurði hana aðeins út veruna í Texas og þetta fyrsta ár hennar í háskólaboltanum.

Hvernig fannst þér þetta fyrsta ár ganga hjá þér hjá Houston Baptist?

“Fyrsta árið gekk bara nokkuð vel fyrri part tímabilsins þegar við spiluðum utan deildar leikina (out of conference). Lenti síðan í því að rífa liðþófa í lok nóvember og þurfti þar af leiðandi að fara í aðgerð í byrjun desember. Var frá í 6 vikur og missti í raun af öllum leikjum í deildinni sem byrjaði ekki fyrr en í desember. Þetta voru frekar mikil vonbrigði en ég náði að koma aftur inn um miðjan janúar og náði mér aftur á frekar góðan stað innan liðsins en svo þegar það var ljóst að við næðum ekki inn í úrslitakeppnina þá ákvað ég ásamt sjúkraþjálfara og þjálfara að það væri best að hvíla aftur hnéð og ná mér algjörlega góðri”

Voru mikil viðbrigði að flytja frá Reykjavík til stórrar borgar eins og Houston?

“Helsti munurinn á Reykjavík og Houston er hvað Houston er rosaleg bílaborg. Þú kemst ekkert fótgangandi og það getur verið flókið ef maður er ekki með bíl. Annars fannst mér bara mjög gott að búa þar, gott veður og gott fólk”

Er mikill munur á körfuboltanum sem þú þurftir að aðlagast þarna og hér heima, hver er helsti munurinn?

“Körfuboltinn úti er mun hraðari og stelpurnar eru sterkari en hér heima. Ég þurfti líka að aðlagast því sem vera nokkuð stór leikmaður á Íslandi að spila á móti mun stærri leikmönnum heldur en ég er vön. Samkeppnin á æfingum er líka gríðarlega mikil þar sem allar 16 stelpurnar eru nógu góðar til að spila og keppa að því”

Nú er þetta ekki stór skóli sem þú valdir á alþjóðlegan mælikvarða, var einhver sérstök ástæða fyrir því þú valdir að fara þangað frekar en annað?

“Ég held að það sem hafi heillað mig mest við að velja HBU er hversu stór hluti liðsins eru að koma annarsstaðar frá en Bandaríkjunum. Þjálfarinn minn er frá Skotlandi svo hún sækist mikið í leikmenn frá Evrópu. Það var líka mikilvægt fyrir mig að geta áfram tekið þátt í landsliðsverkefnum og skólinn leyfir það og hvetur til þess sem er ekkert sjálfsagt. Þó skólinn sé ekki stór á bandarískan mælikvarða að þá eru þarna 6000 nemendur og mikið íþróttastarf”

Nú endaði tímabilið nokkuð snemma hjá flestum í körfuboltaheiminum vegna Covid-19 faraldursins, voru það mikil vonbrigði, náðuð þið að klára körfuboltatímabilið og námsönnina?

“Við náðum að klára okkar tímabil en ekki skólann. Við vorum í miðju vorfríi (spring break) svo hálft liðið mitt var ekki á campus þegar skólinn tilkynnti okkur að kennsla færi fram á netinu það sem eftir væri af önninni. Það voru alveg smá vonbrigði að þurfa að koma heim rúmum tveimur mánuðum fyrr en ég hafði ætlað. Æfingar hefðu átt að fara að byrja aftur í þessari viku og við að fara að undirbúa okkur fyrir næsta tímabil”

Gerum ráð fyrir að þú farir aftur út næsta haust, hver eru helstu markmiðin körfuboltalega fyrir næsta tímabil?

“Ég ætla út aftur næsta tímabil og ná því að vera í lykilstöðu innan liðsins. Ég nota sumarið til að styrkja mig og vinna í mínum veikleikum. Ég sé alveg fram á það á ná þessum markmiðum og þá hjálpa liðinu mínu að enda hærra en við gerðum þetta tímabil og stefna á úrslitakeppnina”

Fréttir
- Auglýsing -