spot_img
HomeFréttirÁskell kláraði FSu með flautukörfu

Áskell kláraði FSu með flautukörfu

FSu nýtti ekki tækifærið í kvöld í síðasta heimaleik sínum í deildarkeppni 1. deildar karla til að gíra upp stemmninguna fyrir úrslitakeppnina þegar ÍA mætti í Iðu. Liðið var gjaldþrota og kraftlaust í varnarleik sínum lengst af og gestirnir fyrir vikið á þægilegri lay-up æfingu nánast frá upphafi til enda. Það var táknrænt að eftir ævintýralega þriggjastigakörfu frá heimaliðinu sem jafnaði leikinn í 81-81 þegar innan við sekúnda var eftir, skyldi Áskell Jónsson, af öllum mönnum, fá boltann á auðum sjó fyrir utan vítateig, rekja boltann í hægðum sínum óáreittur í þægilegt lay-up og skora sigurkörfuna. Þó dómarar leiksins hafi verið svo rausnarlegir að bæta nokkrum sekúndubrotum á klukkuna eftir jöfnunarkörfu FSU var samt bara 1, 3 sekúnda eftir. En þessi naumi tími hefði, miðað við það sem svo gerðist, sennilega dugað fyrir einhverja áhangendur ÍA til að renna ofan af Skaga til að sjá síðasta skotið. Hér á Facebook-síðu ÍA má sjá sigurkörfu Áskels.
 
 
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Eftir 4 mín. leiddi ÍA 10-11 en þá náði heimaliðið frumkvæðinu og hélt naumri forystu til loka fyrsta hluta, staðan þá 25-21. Í öðrum hluta snerist dæmið við, ÍA var skrefinu á undan allan 2. fjórðung og leiddi í hálfleik 41-45. Eftir miðjan þriðja fjórðung fór munurinn upp í 10 stig um hríð og gestirnir juku forskotið í 14 stig, 54-68, eftir 30 mínútna leik. Eftir þrjár mín. í síðasta leikhlutanum voru heimamenn búnir að minnka muninn í 64-70 og þegar mínúta var eftir munaði enn 6 stigum, 73-79. Með góðri pressu náði FSu svo boltanum þremur stigum undir þegar fáar sekúndur voru eftir og Hlynur Hreinsson skoraði úr mjög erfiðu þriggjastigaskoti við endalínuna, við töluverðan fögnuð heimamanna. ÍA tók leikhlé og fékk því innkast á miðjum sóknarvelli sínum, og skoraði sigurkörfuna eins og áður er lýst.
 
FSu tapaði þessum leik í vörninni. Þó Warren sé erfiður ljár í þúfu þurfti ekki að gera honum lífið svona létt. Varnarmenn FSu voru að eltast við hann allt of langt út á völl, hann nýtti sér plássið til að stinga sér framhjá sínum manni inn í miðjan teiginn, fékk þar á móti sér hjálparvörn en gat lagt boltann í hendurnar á félögum sínum í sniðskot. Oftast var þar á ferðinni Ómar Örn Helgason sem skoraði 19 stig, flest nánast gefins á þennan hátt. Svona gekk þetta allan leikinn, nema þegar Warren fékk boltaskrín uppi á toppi, og vörn FSu virtist ráðþrota, önnur hjálp hvergi sjáanleg, lítil samskipti og einbeitingarleysi. Það var ekki fyrr en rétt undir lok leiksins að liðið fór að tvídekka Warren og neyða ÍA að láta aðra koma upp með boltann til að reyna að skapa eitthvað. Það skilaði umsvifalaust árangri og munaði sem sagt minnstu að leikurinn færi í framlengingu.
 
Það er að vísu ofmælt að ÍA sé einsmannslið. En Zachary Warren býr samt til nánast allt sem gagn er að í sóknarleiknum. Hann er bara þrusugóður. Hinir leikmennirnir skila vel sínum hlutverkum og boltanum af öryggi í körfuna þegar Warren er búinn að spóla sig í gegn. Fannar Freyr er auðvitað reynslumikill og góður leikmaður, var öflugur í kvöld með 4/7 í þristum, 18 stig og 15 fráköst. Ómar Örn skoraði 19 stig eins og fram hefur komið, Áskell stóð fyrir sínu með 10 stig og 8 stoðsendingar, Magnús Bjarki skoraði 6 stig og Þorleifur Baldvinsson 2.
 
Hjá FSu sveif hálfgert slen yfir vötnum. Collin Pryor hugsaði í þessum leik meira en vanalega um að gefa á félaga sína, sem er jákvætt í sjálfu sér, nema þegar hann er sjálfur í bestu stöðunni og sóknin ekkert flugbeitt að öðru leyti. Collin skoraði 15 stig og tók 11 fráköst. Ari Gylfason var stigahæstur með 25 stig, alveg funheitur í upphafi og skoraði mikilvægar körfur undir lok leiksins. Hlynur Hreinsson var góður sóknarlega með 17 stig og 8 stoðsendingar, Birkir Víðisson átti nokkra fína spretti, skoraði 6 (5 frk. og 4 stoðs.), Geir Elías 5, Þórarinn og Maciej 4, Fraser 3 og Erlendur Ágúst 2 stig.
 
Með því að gefa frá sér sigur í kvöld er FSu-liðið nánast búið að fyrirgera heimavallarrétti í úrslitakeppninni. Þó sigur vinnist á Þór í lokaleiknum, sem ekki er sjálfgefið, þarf Valur að tapa bæði fyrir KFÍ og Breiðabliki til að sá draumur rætist.
 
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
 
Staðan í 1. deild karla
Deildarkeppni
Nr. Lið L U T S Stig/Fen Stg í L/Fen m Heima s/t Úti s/t Stig heima s/f Stig úti s/f Síðustu 5 Síð 10 Form liðs Heima í röð Úti í röð JL
1. Höttur 20 16 4 32 1718/1537 85.9/76.9 10/1 6/3 89.6/76.2 81.3/77.7 3/2 8/2 +1 +1 -1 2/0
2. ÍA 20 12 8 24 1525/1587 76.3/79.4 6/3 6/5 81.9/77.4 71.6/80.9 3/2 6/4 +1 -1 +1 6/1
3. Hamar 19 12 7 24 1663/1614 87.5/84.9 7/3 5/4 93.0/90.0 81.4/79.3 3/2 5/5 -1 +1 -1 3/0
4. Valur 19 12 7 24 1549/1419 81.5/74.7 6/3 6/4 80.7/70.2 82.3/78.7 5/0 7/3 +5 +3 +3 3/2
5. FSu 20 12 8 24 1780/1681 89.0/84.1 7/4 5/4 90.9/83.4 86.7/84.9 1/4 4/6 -2 -1 -2 1/2
6. Breiðablik
Fréttir
- Auglýsing -