spot_img
HomeFréttirÁsdís Þorgilsdóttir: Gunni myndi baka brauðið sitt sjálfur

Ásdís Þorgilsdóttir: Gunni myndi baka brauðið sitt sjálfur

11:00

{mosimage}

Ásdís Þorgilsdóttir í leik með knattspyrnuliði Keflavíkur 

Í umfjöllun um kappleiki gerist það oft að aðeins er fjallað um leikmenn og lið sem keppa. Karfan.is leitaði uppi konur tveggja leikmanna Keflavíkur og Snæfells, sem berjast þessa dagana hatrammri baráttu, til að fá þeirra hlið á baráttunni og segja okkur hvernig karlarnir þeirra eru fyrir og eftir leik, hvort þær þurfi eitthvað að stjana sérstaklega við þá.

Fyrst náðum við á Ásdísi Þorgilsdóttur konu Gunnars Einarssonar. Ásdís þekki svo sem aðstæðurnar vel enda leikið sjálf og þjálfað í efstu deild kvenna í knattspyrnu. 

Hvernig er andrúmsloftið á heimilinu á leikdag?
Andrúmsloftið á heimilinu er bara mjög gott  fyrir leikina . Það gengur náttúrulega mikið út á leikinn sem á að spila það kvöldið. Hann er aðeins ræddur, farið yfir hverjir mótherjarnir eru,  hvern hann á að dekka í leiknum og annað sem tengist honum. Yfirleitt hef ég nú mína  skoðun á leiknum og kem með einhverja sálfræði punkta fyrir hann til að hugsa um fyrir leikinn. Ég var nú lengi vel í sömu baráttunni í fótboltanum bæði sem leikmaður og svo þjálfari í úrvalsdeild og veit því nákvæmlega út á hvað þetta gengur. Þannig er það sem betur fer auðvelt fyrir mig að setja mig í hans spor.  Á svona stundu öfundar maður hann nú  líka
svolítið því það er jú auðvitað þetta sem er lang skemmtilegast  við íþróttirnar, það að spila úrslitaleiki.

Ég verð að segja það að maður lifir sig því svolítið mikið ínní þetta og þetta á  í raun hug manns allan þegar komið er út í úrslitakeppni.  Auðvitað tekur maður líka sumt inn á sig ef hlutirnir eru ekki alveg að ganga eins og maður vildi en svo aftur á móti er maður alveg í skýjunum og þvílíkt stoltur af honum þegar hlutirnir eru að ganga upp…

Hvernig er að sitja uppi í  stúku og horfa á baráttuna? Sjá kannski kallinn verða fyrir hnjaski.
Á stundum finnst mér mjög erfitt að vera uppi í stúku og horfa á, sérstaklega ef það gengur ekki vel, þá langar manni að öskra einhver komment inná völlinn, en maður bara  situr á sér  eða lætur þá heyra það sem eru við hliðina á manni.

Auðvitað er það alveg ótrúlega gaman þegar vel gengur og þá líður manni alltaf best.

Í gegnum tíðina hefur  Gunnar verið nokkuð heppinn með meiðsli þannig að ég hef ekki þurft að hafa áhyggjur af þeim en auðvitað fylgir þessu alltaf einverjar ryskingar, en sem betur fer hafa þær ekki verið alvarlegar.

Er hann með einhverjar sérþarfir? Þarftu að baka brauð handa honum í morgunmat eða eitthvað þess háttar?
Ég get ekki sagt það, enda myndi hann þá baka brauðið sitt sjálfur, þar sem hann er mikið duglegri en ég að taka til hendinni í eldhúsinu.

Þó að hann sé nú ekkert svakalega hjátrúarfullur þá gefur hann sér þó alltaf tíma í smá slökun og hlustar á tónlist til að koma sér í gírinn. 

En eftir leik, er mikill munur eftir sigur eða tapleik?
Það er nú misjafnt hvernig ástandið er eftir leik, það fer auðvitað eftir því hvort liðið hefur tapað eða unnið og hvernig Gunna hefur gengið í leiknum. Eftir tapleik  (sem hafa nú verið fáir í ár) er maður auðvitað svekktur en hann hefur þó í flestum tilfellum þetta árið verið sáttur við sína frammistöðu og því ekki hægt að vera ósáttur þannig lagað.  Hann er líka búinn að leggja ótrúlega vinnu í æfingar og það er heldur betur að skila sér. Hann er að toppa á hárréttum tíma og loksins þegar hann fékk tækifæri til að byrja leik í vetur í þriðja leiknum á móti ÍR fékk hann má segja algjöra uppreisnaræru og er búinn að brillera síðan.
Sem er bara æðislegt. Maður hefði auðvitað vilja sjá hann spila meira í vetur en maður fær víst engu ráðið um það. En það er bara frábært að hann og liðið allt er að klára tímabilið með stæl, vonandi að þeir haldi svona áfram og klári þetta á fimmtudaginn. Þessir strákar eru allir ótrúlega flottir íþróttamenn og hafa hjartað á réttum stað. En það er akkurat það sem gildir til að verða sannir sigurvegarar.

Hvernig er með konur/kærustur leikmanna, sitjið þið saman á leikjum, hittist þið fyrir leik?
Við konur leikmanna höfum nú lítið komið saman þetta árið. Ekki nema þá með liðinu. 

Á leikjum sit ég alltaf uppi í stúkunni hjá fjölskyldu eða vinum, en ég held nú að flestar hinar séu niðri í heiðursstúkunni.

[email protected]

Mynd: www.vf.is

 

Fréttir
- Auglýsing -