14:00
{mosimage}
(Artest er kominn til liðs við Houston og lætur strax til sín taka)
Undirbúningstímabilið er hafið í NBA deildinni og þegar hafa nokkrir leikir farið fram. Ron Artest kom með látum til Rockets og gerði 15 stig í sínum fyrsta leik þegar Houston lagði Memphis Grizzlies 96-93 í Toyota-Center í Houston. Artest gerði 12 af 15 stigum sínum í fyrsta leikhluta og tók 6 fráköst.
Sumir eru kannski minnugir þess að þegar Artest gekk til liðs við Houston sagði miðherji liðsins, Yao Ming, að hann vonaðist til þess að Artest myndi ekki ráðast á neinn úr hópi áhorfenda eins og frægt varð þegar Artest lék með Indiana Pacers. Artest var fljótur til svara og sagðist ekki breytast fyrir einn né neinn og að liðsfélagar hans í Houston vissu nákvæmlega hvað þeir væru að fá í sínar raðir.
Utah Jazz hafði betur 99-90 gegn LA Lakers í Honda Center í Anaheim. Kobe Bryant gerði aðeins 8 stig fyrir Lakers á 24 mínútum en Ronnie Brewer og Paul Millsap voru báðir með 13 stig hjá Jazz.
Toronto Raptors gerðu góða ferð á heimavöll Cleveland Cavaliers og lögðu heimamenn 84-104. Willie Solomon gerði 17 stig fyrir Raptors en Zydrunas Ilagauskas skoraði 16 stig fyrir Cleveland. LeBron James lék rétt rúmar 8 mínútur hjá Cavaliers og gerði aðeins 1 stig og brenndi af þremur teigskotum en staka stigið kom af vítalínunni.
Dallas Mavericks vann góðan heimasigur á Washington Wizards 108-82 þar sem Dirk Nowitzki og Brandon Bass gerðu báðir 17 stig fyrir heimamenn. Hjá Wizards var Andray Blatche með 18 stig en Gilbert Arenas lék ekki með að þessu sinni.
Portland Trailblazers unnu góðan sigur á Sacramento Kings 110-81 þar sem Greg Oden gerði 13 stig og tók 5 fráköst. Oden var valinn fyrstur í nýliðavalinu í fyrra en sökum meiðsla lék hann ekkert með Trailblazers á síðustu leiktíð. Stigahæstur hjá Portland var Martell Webster með 15 stig. Atkvæðamestur í liði Kings var Donte Greene með 18 stig.



