spot_img
HomeFréttirArtest mátti sætta sig við tap í endurkomu til Detroit

Artest mátti sætta sig við tap í endurkomu til Detroit

14:07 

{mosimage}

Rip Hamilton gerði 19 stig í nótt þegar Detroit Pistons tóku á móti Ron Artest og Sacramento Kings í NBA deildinni. Pistons höfðu sigur í leiknum 91-74 en þetta var fyrsti leikur Artest í Detroit eftir handalögmálin frægu árið 2004 þegar Artest lék með Indiana Pacers. Ron Artest fékk bara hinar ágætustu móttökur í gær en vissulega voru fjölmargir Pistons aðdáendur sem bauluðu á hann en fjölmiðlar vestra segja Artest hafa sloppið þokkalega. Stigahæstur í liði Kings var Corliss Williamsson með 17 stig en sjálfur gerði Artest 14 stig í leiknum og tók 6 fráköst. Pistons tóku snemma forystuna gegn Kings í nótt og létu hana ekki af hendi. Gestirnir frá Sacramento náðu að klóra aðeins í bakkann í fjórða leikhluta en það hafði lítið að segja. Chris Webber, sem skipti nýlega yfir í Pistons, var eini maður vallarins í nótt sem náði tvennu í leiknum, hann gerði 11 stig og tók 10 fráköst.    

Elton Brand gerði 34 stig fyrir Clippers og Sam Cassell bætti við 21 stigi og 14 stoðsendingum þegar LA Clippers lögðu Grizzlies 112-91. Pau Gasol var stigahæstur hjá Grizzlies með 27 stig.  

Matt Carroll gerði 22 stig þegar Charlotte Bobcats lagði Atlanta Hawks 104-85. Hjá Hawks var Joe Johnson með 22 stig. 

Danny Granger átti möguleika á því að tryggja Indiana Pacers sigur á New York í nótt en hann átti lokaskot leiksins fyrir Pacers frá þriggja stiga línunni. Skotið geigaði og Knicks fóru með tveggja stiga sigur af hómi 108-106. Þetta var þriðji leikurinn í röð sem Knicks spila svona jafnan leik en síðustu tveimur leikjum höfðu þeir tapað á lokasprettinum. Hjá Knicks var Eddie Curry með 26 stig en David Lee bætti við 20 stigum og 16 fráköstum. Hjá Indiana Pacers var Jermaine O´Neal með 25 stig og 10 fráköst. 

Leikur Washington Wizards og Boston Celtics fór í framlengingu í nótt þar sem Wizards höfðu á endanum sigur 115-110. Caron Butler átti góðan dag í liði Wizards með 23 stig og 11 fráköst. Antwan Jamison gerði einnig 23 stig í liði Wizards og Gilbert Arenas var með 22 stig. Hjá Celtics var Ryan Gomes með 31 stig og 9 fráköst. 

Vince Carter gerði 27 stig fyrir New Jersey Nets í nótt þegar liðið hafði góðan sigur á Orlando Magic, 101-94. Hjá Magic var Hedo Turkoglu stigahæstur með 24 stig og 8 fráköst.  

New Orleans Hornets vann LA Lakers í nótt þar sem David West gerði 26 stig og tók 12 fráköst fyrir Hornets. Hjá Lakers voru þeir Kobe Bryant og Maurice Evans báðir með 23 stig. 

Chicago Bulls urðu að sætta sig við ósigur gegn Utah Jazz á heimavelli sínum United Center. Mehmet Okur gerði 21 stig fyrir Jazz og tók auk þess 11 fráköst í leiknum. Hjá Bulls var Ben Gordon með 23 stig. 

Allen Iverson gerði 36 stig og gaf 10 stoðsendingar þegar Denver Nuggets rétt marði Houston Rockets 121-113 í framlengdum leik. Tracy McGrady gerði 24 stig og gaf 10 stoðsendingar í liði Rockets sem leika enn á Yao Ming sem er meiddur. 

Gríðarleg spenna var í leik Cleveland Cavaliers og Golden State Warriors í nótt en framlengja þurfti leikinn þar sem Cavaliers höfðu betur 106-104. LeBron James gerði 32 stig í liði Cavaliers en Stephen Jackson gerði 29 stig fyrir Warriors. 

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -