spot_img
HomeFréttirArnþór: Hrikalega erfitt

Arnþór: Hrikalega erfitt

„Ég hélt í fyrstu að þeta væri bara smá „tékk“ á manni eins og hafði verið fyrr á tímabilinu en eftir leikinn gegn Stjörnunni beið mín bara samningur á borðinu og ég fékk til klukkan þrjú síðasta þriðjudag til þess að svara þessu,“ sagði Arnþór Freyr Guðmundsson einn máttarstólpa leikmanna Fjölnis í Domino´s deild karla. Eins og áður hefur komið fram er Arnþór á leið til Spánar að nýju í EBA deildina þar sem hann hefur áður leikið.
 
 
„Alcásar er í fjórðu efstu deild Spánar og í sama riðli og Albacete,“ sagði Arnþór sem var áður á mála hjá Albacete í EBA deildinni. „Alcázar er með mannskap og getu til þess að fara upp í LEB Silver deildina og sú staðreynd var stór hluti af ákvörðun minni,“ sagði Arnþór sem á eftir að fara með nýja liðinu á gamla heimavöllinn og býst þar við rosalegum leik.
 
Hvernig er samt að fara frá Fjölni við núverandi aðstæður þegar liðið er í fallsæti?
„Hrikalega erfitt og það var lítið sofið um nóttina eftir að ákvörðunin var tekin en þetta varð niðurstaðan og mér fannst ég ekki geta hafnað þessu tækifæri. Það vantaði bakvörð í liðið, skotmann sem getur leyst af í stöðu leikstjórnanda, ekki ósvipað hlutverk og ég skilaði hjá Albacete ásamt því auðvitað að færa vörninni smá lím.“
 
Arnþór sagði það einnig erfitt að þurfa að fylgjast með lokabaráttunni hjá Fjölni úr fjarska en hann heldur utan til Spánar á miðvikudag í næstu viku. Hvernig tók uppeldisklúbburinn þessum tíðindum?
 
„Menn sýndu þessu mikinn stuðning og skilning, þ.e. ávkörðun minni en maður skilur að einhverjir sjái ekki það sama og ég við þessa ákvörðun. Þetta er niðurstaðan engu að síður enda ekki á hverjum degi sem svona tilboð skjóta upp kollinum.“
 
Arnþór kveður Fjölni þegar fjórar umferðir eru eftir í úrvalsdeildinni og Fjölnir í 11. sæti með 8 stig eins og Skallagrímur og ÍR. Arnþór er stigahæsti leikmaður liðsins með 15,8 stig að meðaltali í leik, 4,6 fráköst og 4,3 stoðsendingar.
  
Alcázar er í 2. sæti B-riðils í EBA deildinni með 11 sigra og 4 tapleiki en á toppi riðilsins er ungmennalið Real Madrid með 12 sigra og 3 tapleiki. 
 
Mynd/ Arnþór í leik með Albacete í EBA deildinni.
Fréttir
- Auglýsing -