spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaArnór Tristan hetja Grindavíkur í HS Orku höllinni

Arnór Tristan hetja Grindavíkur í HS Orku höllinni

Grindavík lagði KR með minnsta mun mögulegum í HS orku höllinni í kvöld í fjórðu umferð Bónus deildar karla, 78-77.

Eftir leikinn er Grindavík eina taplausa lið deildarinnar á meðan KR er sigurleik fyrir neðan með þrjá sigra og eitt tap.

Stór skörð voru höggin í leikmannahóp Grindavíkur í kvöld, þar sem DeAndre Kane var frá vegna meiðsla og þá lék Khalil Shabazz aðeins tæpar 15 mínútur í leiknum.

Þrátt fyrir það var leikurinn spennandi, en lengst af var það KR sem leiddi. Náðu þó aldrei að slíta sig frá heimamönnum. Mest var forysta þeirra undir lok þriðja fjórðungs átta stig, en Grindavík vann sig alltaf til baka.

Líkt og tölurnar gefa til kynna var leikurinn þó æsispennandi á lokamínútunum. Þar gerði Grindavík virkilega vel. Setja síðustu sex stig leiksins og er það Arnór Tristan Helgason sem tryggir þeim sigurinn með glæsilegri körfu og víti á eftir sem kemur þeim þessu eina stigi yfir, 78-77.

Á lokasekúndunum fær KR gott tækifæri til þess að komast aftur yfir, en Linards Jaunzems bregst bogalistin í sniðskoti á sama tíma og klukkan er að renna út.

Stigahæstir fyrir KR í kvöld voru Aleksa Jugovic með 21 stig og Friðrik Anton Jónsson með 15 stig.

Fyrir Grindavík var stigahæstur Arnór Tristan Helgason með 17 stig og Ólafur Ólafsson var honum næstur með 15 stig.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -