Flestum er það ljóst að Árni Ragnarsson var einn af burðarásum FSu í Iceland Express deildinni á síðustu leiktíð en að henni lokinni söðlaði Árni um og hélt í nám til Bandaríkjanna. Árni nemur nú við University of Huntsville Alabama og heitir körfuboltalið skólans Huntsville Chargers.
Árni leikur ekki með liðinu þetta tímabilið heldur tekur hann sér stöðu ,,redshirt“ eins og það er kallað en þá nemur hann við skólann og æfir með skólaliðinu en spilar ekki leikina. Það gerist ekki fyrr en á næsta ári.
,,Körfuboltinn er í fullum gír hérna. Liðið er nú búið að spila 6 leiki, búið að vinna 4 og tapa 2. Við töpuðum þessum tveimur leikjum á útivelli með 1 og 4 stigi þannig það má litlu muna að við séum 6-0. Hinsvegar unnum við Delta State á útivelli, liði sem var spáð því að vera sterkasta liðið hér í suðrinu þennan vetur,“ segir Árni á bloggsíðu sinni www.arniragg.blogspot.com
Árni er brattur þó hann sé ekki að spila með Chargers þessa leiktíðina og kveðst á fullu í undirbúningi fyrir stærsta bardaga lífs síns:
,,Ég lít á þetta eins og að vera boxari. Ég er bara að æfa brjálæðislega til þess að komast í hrikalegt form fyrir stærsta bardaga lífs míns… sem verður á næsta ári.“
Við skorum á fólk að fylgjast vel með Árna á blogginu hans, þrælskemmtilegur penni og líflegur náungi þarna á ferðinni. Þar gefur m.a. að líta þegar kappinn rífur sig úr að ofan í brúðkaupi… ekki slæmt hjá Ísmanninum í Alabamba.