spot_img
HomeFréttirÁrni: Enginn kvartar yfir seinkun á dagskrá RÚV

Árni: Enginn kvartar yfir seinkun á dagskrá RÚV

Árni Þór Hilmarsson þjálfari Hrunamanna er næsti spámaður á svið en hann rýnir í bikarúrslitaleikina í Poweradebikarnum sem fram fara í Laugardalshöll á morgun.
 
 
Bikarúrslitaleikur kvenna
Grindavík – Keflavík: laugardagur 21. febrúar kl. 13:30.
 
Það verður mjög spennandi fylgjast með því hvernig þessi leikur þróast. Bæði lið leggja líklega upp með stífan varnarleik og ætla sér að þjarma vel að bakvörðum andstæðinganna. Þar reynir á spennustig leikstjórnenda því tapaðir boltar í byrjun geta sett tóninn fyrir leikinn. Grindavíkurliðið hefur góða og reynslumikla leikmenn sem koma til með að vega þungt í þessum leik. Allir þessir frábæru ungu leikmenn Keflvíkinga fá verðugt verkefni því að spila stærsta einstaka leik ársins án lykilleikmanns er meira en að segja það. Keflavíkurfæribandið sem framleiðir alla þessa frábæru leikmenn þarf að sætta sig við tap eftir háspennuleik. Ég spái bikarnum til Grindavíkur kvennamegin.
 
 
Bikarúrslitaleikur karla
Stjarnan – KR: laugardagur 21. febrúar kl. 16:00
 
Einhvern veginn hefur maður á tilfinningunni að þessi verði svakalegur. Stjarnan mætir til leiks með allt að vinna á meðan KR eru loks lentir eftir ævintýraferðina 2014. Maður spyr sig hver það var sem fann formúluna að því að gera KR skráveifu. A.m.k. virðist hún hafa fundist og KR kemur inn í þennan leik með tap á bakinu. Það er kalt á toppnum og kannski ósanngjarnar kröfur á KR liðið á tímum. Það er eins og menn séu hissa á að liðið geti tapað, vissulega er liðið feykisterkt en ekki óskeikult. Hinum megin er stemmningin aðeins öðruvísi. Stjarnan kemur inn í leikinn sem stemmningslið sem hefur allt að vinna. Liðið hefur ekki tapað bikarúrslitaleik, stuðningur við liðið verið frábær og uppbygging körfuboltans í Garðabænum til mikillar eftirbreytni. Þetta hljómar svolítið eins og sagan frá 2009 muni endirtaka sig! En ef maður horfir á mannskapinn og kíkir í fræðin þá fer maður á þyngri hluta vogarinnar og spáir KR sigri. Þar held ég að leggi mest á árarnar stóri strákurinn í teignum og það hve klókir leikmenn KR eru að nýta sér þá yfirburðarstöðu. Pavel er frábær leikmaður, en það má ekki gleyma að hann nýtur góðrar aðstoðar frá körfuknattleiksprófessornum Helga og leiklestur Brynjars og Darra er óumdeilanlega góður. Hinum megin má nefna að Justin, Marvin og Dagur eru allir frábærir körfuboltamenn og nýji erlendi leikmaðurinn búinn með aðlögun og klár í slaginn. Til viðbótar eru hörkuleikmenn í báðum liðum sem geta gert þetta enn áhugaverðara. KR tekur bikarinn eftir frábæran leik, tvöföld framlenging, geggjaður leikur og enginn kvartar yfir því að dagskránni seinkar á RÚV.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -