Árni Elmar Hrafnsson hefur ákveðið að leika með Breiðablik í 1. deild karla á næsta tímabili. Árni kemur frá Snæfell þar sem hann lék stórt hlutverk í Dominos deild karla. Snæfell náði ekki sigri en ungir leikmenn á borð við Árna fengu tækifærið. Árni óx gríðarlega eftir því sem leið á tímabilið og átti frábæra leiki undir lok tímabils.
Árni Elmar er uppalinn hjá Fjölni sem einnig verður í 1. deild karla á næsta tímabili. Hann endaði með 11, 5 stig og 3,6 fráköst að meðaltali í leik fyrir Snæfell. Einnig hefur Breiðablik samið við alla leikmenn liðsins sem voru með á síðasta tímabili fyrir utan Egil Vignisson sem er að fara í nám erlendis.
Fréttatilkynningu Breiðabliks má sjá í heild sinni hér að neðan:
Hinn ungi og efnilegi bakvörður, Árni Elmar Hrafnsson, hefur ákveðið að ganga til liðs við Breiðablik og mun því leika með liðinu í 1. deildinni á næsta tímabili. Árni er fæddur árið 1998 og kemur upphaflega frá Fjölni. Hann lék með Snæfelli á síðasta ári þar sem hann var með 11,5 stig og 3,6 fráköst að meðaltali, en hann var valinn besti leikmaður tímabilsins hjá liðinu. Þá hefur Árni einnig leikið með yngri landsliðum Íslands síðustu ár. Við erum afar ánægð að fá þennan metnaðarfulla leikmann til liðs við okkur og bjóðum Árna hjartanlega velkominn í okkar góða hóp.
Þá hafa aðrir leikmenn Breiðabliks samið um að leika áfram með liðinu á næsta tímabili, fyrir utan Egil Vignisson sem heldur utan í nám í haust. Ljóst er að liðið verður sterkt næsta vetur, þar sem hinir ungu leikmenn liðsins sýndu á nýliðnu tímabili að þeir eru tilbúnir að berjast á toppnum og er markmiðið að sjálfsögðu að ná 1. sæti deildarinnar.
Mynd/ Breiðablik – Árni Elmar og Sigríður Kristjánsdóttir formaður körfuknattleiksdeildar Breiðabliks skrifa undir.