spot_img
HomeFréttirArnar og Elísa til KKÍ

Arnar og Elísa til KKÍ

Breytingar verða á skrifstofu KKÍ nú í vor þegar að Arnar Guðjónsson og Elísa Björk Þorsteinsdóttir taka til starfa í stað Kristins Geirs Pálssonar og Snorra Arnar Arnaldssonar. Staðfestir Hannes S. Jónsson framkvæmdarstjóri sambandsins þetta í samtali við Körfuna fyrr í dag.

Elísa fer í móta- og dómaramál og önnur verkefni sem til falla og Arnar fer í afreksmál, félagaskipti og önnur verkefni, en hann tekur við starfinu eftir að hafa þjálfað hjá Stjörnunni síðan 2018. Stefnt er að því að Elísa hefji störf 1. maí og Arnar 1. júní. Ein önnur breyting er á ráðningum innan skrifstofu sambandsins þar sem Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir mun einnig taka við sem mótastjóri, en hún hefur unnið á skrifstofunni síðustu ár.

Segir Hannes það hafa verið ánægjulegt hvað margir hafi sótt um störfin tvö, en vel yfir 100 umsóknir hafi borist. Þau hafi þó þurft að vinna hratt þar sem Kristinn Geir, sem áður var afreksstjóri og Snorri Örn, sem áður var mótastjóri muni hætta nú í vor.

Þá segir Hannes sambandið samgleðjast þeim Kristni og Snorra með nýjar áskoranir og að þau séu ánægð með að þó þeir haldi nú á ný mið muni þeir áfram vera nánir hreyfingunni og að sambandið muni að einhverju leyti njóta starfskrafta þeirra áfram í hliðarverkefnum. Segir Hannes einnig mikla eftirvæntingu að fá þau Arnar og Elísu til starfa, mikils sé vænst af þeim, skrifstofan sé fámenn og því velti mikið á fólkinu sem vinnur þar sem ein góð liðsheild. 

Fréttir
- Auglýsing -