spot_img
HomeFréttirArnar: KR á svindlkall í Pavel

Arnar: KR á svindlkall í Pavel

Arnar Guðjónsson annar tveggja aðstoðarþjálfara íslenska landsliðsins fylgist grannt með íslenska boltanum frá Danmörku þar sem hann er aðstoðarþjálfari Craig Pedersen hjá Svendborg Rabbits. Karfan.is fékk Arnar til að rýna í bikarúrslitaleik KR og Stjörnunnar sem fram fer í Laugardalshöll á morgun.  
 
Þetta verður fróðlegur leikur. Ég hef náð að sjá nokkra leiki með báðum liðum í vetur, þökk sé öllum þessum frábæru vefsjónvörpum heima.
KR-ingar eru með afburðar lið, en hafa hinsvegar verið að spila illa upp á síðkastið. Spurningin er auðvitað hvort þeir hafi verið með hugann við bikarúrslitin eða hvort þeir séu í smá lægð. Stjarnan er með sterkan hóp, en hafa verið nokkuð óstöðugir í vetur. Mannabreytingar á miðri leiktíð get sett strik í reikninginn, en það lítur út fyrir að Atkinson sé að komast betur og betur inn í hlutina.
 
Í mínum augum skiptir Stjörnuna miklu máli að fá góðan leik frá Justin, hann hefur átt í dálítið miklum vandræðum gegn KR, bæði í þessum eina leik í ár, sem og síðasta vetur. Hann er að tapa boltanum mikið og skot prósenta ekki verið jafn góð og hann á að venjast. Einnig verða Stjörnumenn að finna leið til að verjast Craion. Þeir eiga ekki mann sem stoppar hann einn á einn, þannig að spurningin er hversu vel þeir halda honum frá boltanum.
 
Það sem ég tel vera hvað mikilvægast fyrir KR, er að þeir sækji á körfuna áður en þeir fara að bomba boltanum fyrir utan. Þeir eiga nóg af góðum skotmönnum, en þeir verða að láta Stjörnuna verjast sér og komast á línuna. Ef þeir gera þetta þá bjóðast góð skot. Þeir hafa oft og tíðum reynt að skjóta sig í gang og gleymt Craion og þá gætu þeir lent í veseni.
Varnarlega eru þeir með sterkt lið, en gætu átt í vandræðum með að finna mann á Dag Kár, verður að teljast líklegt að Darri verði settur Justin til höfuðs og það gæti boðið upp á tækifæri fyrir Dag til að sækja á þá.
 
En ég held að þegar öllu er á botnin hvolft, þá eiga KR-ingar svindl karl í Pavel. Hann er afburðarmaður í deildinni og það er á hreinu að hann mætir vel gíraður í Höllina. Þannig að ef ég væri veðjandi maður, þá myndi ég setja á 10-15 stiga sigur KR-inga.
 
Fréttir
- Auglýsing -