spot_img
HomeBónusdeildinBónusdeild karlaArnar hetja Tindastóls í framlengdum sigurleik á Meistaravöllum

Arnar hetja Tindastóls í framlengdum sigurleik á Meistaravöllum

Tindastóll lagði KR í kvöld eftir framlengdan leik í annarri umferð Subway deildar karla, 82-83. KR hefur því unnið einn og tapað einum á meðan að Tindastóll hefur unnið báða leiki sína það sem af er tímabili.

Gangur leiks

Leikurinn fer nokkuð fjörlega af stað þó liðunum gangi illa að setja stig á töfluna fyrstu mínúturnar. Eftir fyrsta leikhluta eru gestirnir úr Skagafirði þó skrefinu á undan, 13-16. Í öðrum leikhlutanum ná heimamenn svo að setja fótinn almennilega á bensíngjöfina og nánast keyra yfir Stólana. Ná mest 11 stiga forystu, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er staðan 44-34.

Stólarnir mæta svo nokkuð árásagjarnir inn í seinni hálfleikinn. Ná nánast að loka á KR varnarlega. Vinna niður forystu heimamanna í þriðja leikhlutanum, en eru þó einu stigi undir fyrir þann fjórða, 58-57. Leikurinn var svo í járnum allt þangað til að lokaflautan gall, en staðan eftir venjulegan leiktíma var 76-76 og því þurfti að framlengja.

Afar furðuleg atburðarrás átti sér stað undir lok venjulegs leiktíma þar sem að leikmanni KR Brynjari Þór Björnssyni var meðal annars vikið út úr húsi fyrir sína aðra tæknivillu og dómarar leiksins fóru að rífast við stuðningsmenn Tindastóls.

Í framlengingunni sjálfri gekk liðunum erfiðlega að skora framan af. Það kom þó til þegar að leið á og fór svo að lokum að Tindastóll sigraði með einu stigi, 82-83, en það var Sigtryggur Arnar Björnsson sem tryggði þeim sigurinn með laglegum þrist þegar að um 6 sekúndur voru eftir af leiknum.

Kjarninn

KR liðið leit virkilega vel út á löngum köflum í þessum leik. Virðast hafa dottið í lukkupottinn með erlenda leikmenn sína Dani Koljanin, Adama Darboe og Shawn Glover. Ljóst er að þó að félagið sé í einhverjum uppbyggingarfasa, munu þeir gefa hvaða liði sem er leik á komandi vetri.

Stólaliðið að sama sapi litu einnig nokkuð vel út. Stærsti munurinn kannski á þessum leik og leik fyrstu umferðar þar sem þeir lögðu Val nokkuð örugglega var kannski sá að KR virtist finna fleiri göt á annars sterkri vörn þeirra. Þegar það skipti máli náðu þeir þó að stoppa, þó svo að á endanum hafi þetta verið nokkur lukka sem féll með þeim.

Atkvæðamestir

Shawn Glover var atkvæðamestur heimamanna í leiknum með 23 stig og 11 fráköst. Fyrir Stólana var Sigurður Gunnar Þorsteinsson bestur með 15 stig og 8 fráköst.

Hvað svo?

Bæði lið leika næst eftir slétta viku, fimmtudaginn 21. október. Þá heimsækja KR-ingar Grindavík og Tindastóll fær nýliða Breiðabliks í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -