spot_img
HomeFréttirArnar Freyr leggur skóna á hilluna

Arnar Freyr leggur skóna á hilluna

Keflvíkingurinn Arnar Freyr Jónsson hefur ákveðið að hætta í körfubolta, en þetta staðfesti leikmaðurinn við Karfan.is fyrr í kvöld og lét opið bréf til aðstandenda körfunnar í Keflavík fylgja með fréttunum. Arnar spilaði 15 tímabil í deild þeirra bestu, lengst af fyrir lið Keflavíkur með smá (3. ára) ferðalagi í millitíðinni til Grindavíkur, sem og í dönsku úrvalsdeildina. Á þessum tíma varð hann íslandsmeistari í 4 skipti og bikarmeistari í 3 með Keflavík. Einnig spilaði hann bæði fyrir öll yngri landslið Íslands, sem og 26 A-landsliðsleiki.

Mikill svipur verður af Arnari úr deildinni, á því er enginn vafi, litríkari keppnismann er leitun að, en hann kveðst nú ætla að opna nýjan kafla lífssins (sjá bréf) og óskar Karfan.is honum alls hins besta með hvað það nú verður sem hann ætlar að taka sér fyrir hendur.

 

 

Keflavík 02.04.15

Langt og strangt tímabil komið að endastöð og með risa stórum skell. Skrítið þetta síðasta ár boltalega séð. Miklar væntingar og markmiðin voru há eins og alltaf, en svona er þetta. Stundum gengur ekki allt upp eins og maður vill.

 

Var búinn að taka ákvörðun um að segja þetta gott fyrir þetta tímabil, en ákvað ad taka slaginn með vini mínum Helga Jónasi. Því miður fór það ekki heldur eins og það átti að fara.

 

Forsendur fyrir þessu síðasta ári mínu í boltanum því brostnar og ég í raun stóð frammi fyrir því að vera næstum ákveðinn með að hætta á miðju timabili. Virkilega erfitt tímabil fyrir mig heilsulega séð. Fékk lungnabógu og meiðsli ofan á þá gleði… Gaf mér þó smá pláss og tíma til að taka þá ákvörðun endanlega og viti menn, eftir þá umhugsun fann ég að ég gat bara ekki skilið liðsfélaga mína og stuðningsmenn eftir þannig. Herti upp hugann og gerði það sem ég hef svo oft gert áður, hunskaðist á æfingu, án þess að í raun hafa rætt ofangreint við neinn. Sór þess í raun eið að vera ekkert að ræða þetta. Tók mig þennan tíma að finna það úr hverju maður er gerður og sé ekki neitt eftir því svosem. Ég myndi aldrei skilja félaga mína eftir eina í skotgröfunum, því þannig er ég ekki gerður. Finnst að tala um skotgrafir eiga sérstaklega vel við þarna, því oft á tíðum finnst manni, sem leikmanni Keflavíkur, þessi bolti vera eitt stórt stríð þar sem okkur er stillt upp á móti rest.

 

Strákarnir í liðinu eru búnir að standa sig eins og hetjur miðað við þennan kaflaskipta vetur og hef ég aldrei lent í slíkum áður. Liðið hafði nákvæmlega engan stöðugleika. Það liggur við að það hafi verið daglegt að liðið hafi þurft að eiga við nýjar gerðir óáðurséðra vandamála. Því vill ég biðja stuðningsmenn Keflavíkur, áður en farið er af stað með að gera lítið úr liðsfélögum mínum eða ausa yfir þá fúkyrðum, að hugsa sig tvisvar um.

 

Þetta eru alltsaman hinir bestu drengir, sem bæði hafa og eru tilbúnir að fórna sér í hvívetna fyrir okkar góða félag. Margir held ég að hefðu bognað/brotnað við svona vetur líkan þeim sem við vorum að slaufa í dag, en það gerðu þeir ekki. Það að hafa komið liðinu í úrslitakeppnina er ekki talinn árangur í Keflavík, það er skylda. 

 

Í henni gekk okkur þó, eins og síðustu nokkur ár reyndar, mjög illa. Væntingarnar í Keflavík eru mun meiri en árangurinn hefur verið. Væntingarnar sem slíkar eru af hinu góða, auðvitað á Keflavík að keppa um titilinn á hverju ári. Þessar væntingar verða hinsvegar að haldast í hendur við uppbyggingu. Því aðeins þannig verða þær raunverulegar og eitthvað sem hægt er að halda uppi til framtíðar líkt og það hefur verið hingað til. Ef við vinnum saman að uppbyggingunni öll sem ein, þá er ég þess fullviss að stuðningsmenn geti aftur farið að vera jafn stoltir og þeir hafa verið heilt yfir síðustu áratugi á Sláturhúsinu.

 

Ég vill fá að þakka kærlega fyrir mig og allt sem að Keflavík hefur gefið mér í gegnum árin. Það eru ekki allir jafn heppnir og ég, að fá að vera þáttakandi og fá að upplifa alla þessa Íslands og bikarmeistaratitla með liðinu og stuðningsmönnum. Þó áskorun mín um að koma aftur úr erfiðum meiðslum hafi verið verðugt verkefni, er ég þess fullviss um að nú sé á endastöðina komið og að feril mínum sem körfuknattleiksleikmanni sé lokið

 

Það verður vafalaust mikil eftirsjá sem fylgir, enda ekki annað hægt þegar svo margar stundir hafa verið góðar og maður hefur fengið að vera þess heiðurs aðnjótandi að spila með jafn frábærum liðsfélögum, læra af og vinna með jafn duglegu og góðu fólki þessi ár.

 

Þakka að lokum, aftur, innilega fyrir mig.

 

Áfram og að eilífu stórveldið, Keflavík!

 

-Arnar

Fréttir
- Auglýsing -