Stjarnan lagði Grindavík í dag í átta liða úrslitum Dominos deildar karla, 85-69. Stjarnan er því aftur komin með yfirhöndina í einvíginu, 21, en næsti leikur liðanna er komandi þriðjudag 25. maí.
Karfan spjallaði við Arnar Guðjónsson, þjálfara Stjörnunnar, eftir leik í MGH.
Arnar Guðjóns er betur til þess falinn að þjálfa körfuboltalið en að moka skurði:
Mig langar til að byrja á því að lýsa yfir aðdáun minni á varnarleik þínum í síðasta leik!
Já…
Það er gaman af þessu, ég meina þetta eins vel og hægt er því að er svo gaman að sjá svona ástríðu…
Ég held að það sé best bara að maður sé bara í formalíni…að verða allir svo reiðir..formaðurinn ákvað að tilkynna að ég væri búinn að semja aftur því hann svo hræddur við að þurfa að reka mig annars…mér líður bara eins og ég hafi verið að sparka í einhvern Grindvíking þarna…
…voru ekki allir rólegir yfir þessu?
Jújú ég er að grínast í þér…ég hætti ef mér finnst ekki lengur vera einhvern stemmning í þessu, þá fer ég að gera eitthvað annað.
Jájá, ef þetta er ekki skemmtilegt þá ferðu bara að gera eitthvað annað…moka skurð eða eitthvað!
Ég væri reyndar örugglega alveg ógeðslega lélegur í því sko, öll vinna sem snerist að því að nota líkamann…það yrði lélegt að ráða mig í slíkt!
Akkúrat. Þú ert vel til þess fallinn að stýra körfuboltaliði. Þú tókst smá rant hérna í viðtali eftir síðasta leik en það hefur ekki haft neikvæð áhrif á undirbúning þinn á liðinu fyrir þennan leik…
Já..ég var bara ósáttur með hvernig þetta er hérna á Íslandi…
Ég tek undir það…og til að gera langa sögu stutta benti Arnar á að það hefur breyst fyrir hvað leikmenn fá tæknivillu og óíþróttamannslega villu en reglur um leikbönn hafa ekki breyst í takti við það. Arnar benti á að það væri skynsamlegra að beita hugsanlega frekar sektum en leikbönnum.
Fín ábending frá Arnari, það er hægt að gera betur í þessum málum.
En aftur að leiknum. Það er gömul saga og ný að það er gjarnan varnarleikurinn sem leggur grunn að sigrum og það var einmitt þannig í dag eða hvað?
Mér fannst við samt sem áður á köflum opna okkur og við að klikka á hlutum sem við getum klárað betur. Það má ekki gefa okkur falskt öryggi, við spiluðum ekki frábæran varnarleik því Grindvíkingar eru betri sóknarlega venjulega en þeir sýndu í dag, þeir voru t.d. frábærir sóknarlega í síðasta leik og við þurfum að vera á tánum, þetta er langt frá því að vera komið.
Í þessu samhengi má vissulega benda á að Grindvíkingar fengu nokkuð af opnum skotum sem þeir settu bara ekki ofan í…
Já og ekki leikmenn sem við viljum að séu að skjóta boltanum galopnir. Við gerðum mistök sem við þurfum að leiðrétta.
Akkúrat. Nú veit ég ekki hvort það hafi eitthvað upp á sig að tala um Mirza…en þið missið hann í meiðsli…þið látið engan bilbug á ykkur að finna eða hvað, ætlið þið ennþá að verða Íslandsmeistarar?
Já! Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess. En við erum bara í þeirri stöðu núna að við erum að fara í mjög erfiðan leik í Grindavík á þriðjudaginn og það þarf að klára það. Ég held svo sem að allir sem fara í úrslitakeppnina ætli að verða Íslandsmeistarar. Þú ferð í alla leiki til að vinna og ef það gengur upp þá verðuru Íslandsmeistari!
Það er alveg rétt býst ég við!
Við erum engin undantekning frá því… við höfum misst mann en horfðu á Dúa Þór í dag, við vorum +26 með hann á vellinum, hann gaf okkur gott framlag í dag þó tölfræðin hafi kannski ekki verið sérstök þá var það sem hann gerði fyrir okkur á vellinum í dag mjög mikilvægt.
Ég ætlaði einmitt að minnast á hann…þú ert eins og ég heyri mjög ánægður með hann. Hann er kannski einmitt leikmaðurinn sem fyllir upp í mínúturnar hans Mirza, a.m.k. að einhverju leyti?
Jájá, og bara eftir því hvernig leikirnir spilast, það gæti orðið Orri eða Hugi eða einhver næst. Hann var mikilvægur fyrir okkur í dag…hver leikur á sitt líf og alveg óskylt því síðasta, Dúi var svarið í dag.
Hversu mikið viltu klára seríuna í næsta leik í Grindavík?
Bara ógeðslega mikið. Því ef við gerum það ekki þá gætum við ennþá dottið út! Ég vil vinna þessa seríu!
Afskaplega lógískt svar hjá Arnari eins og búast mátti við og alltaf gaman að tala við þennan mikla meistara.
Viðtal / Kári Viðarsson