Stjarnan vann mjög öruggan sigur á KR fyrr í kvöld í Dominos deild karla. Lokastaðan 110-67 fyrir Stjörnunni.
Arnar Guðjóns var auðvitað ljómandi hress eftir leik enda skilaði gott leikplan frábærum sigri:
Mér hefur sýnst að bara Stjarnan hafi kjark til þess, og kannski leikmenn, til að spila einn á einn-vörn gegn Craion…
Já…og hann skoraði tæplega 30 stig…
…ég veit það EN þið unnuð leikinn með svo mörgum stigum að ég nenni ekki að reikna það út…
Neinei, þetta er rétt, við ákváðum að taka sénsinn að hjálpa ekki á hann og hann sýndi sín gæði. En við kannski gerðum vel í að verjast 3ja stiga skotunum. Ég þarf svo sem að horfa á þetta aftur, þeir fengu svo sem einhver skot opin sem þeir klikkuðu á – þeir skutu ekki vel og þá lítur þetta betur út.
Það er rétt, en ég leyfi mér að fullyrða að það voru ekki ógrynni skota…
Í fljótu bragði man ég eftir svona 7-8 kannski, KR er frábært lið þegar það fær skot, þeir hittu ekki á góðan skotdag og við þökkum Guði fyrir það.
Akkúrat, það hefur auðvitað eitthvað að segja, þeir hittu illa. En þið voruð líka að tæta þá í ykkur sóknarlega á löngum köflum – var sóknin svona góð hjá ykkur eða KR-vörnin slök, hvernig sástu það?
Mér fannst á köflum sóknin okkar góð en síðustu 5 mínútur í öðrum leikhluta þá hertu þeir vörnina talsvert, þá lentum við í tómu basli og við töpuðum mörgum boltum. Við náðum svolítið að endurstilla okkur í hálfleiknum.
Já…en þeir skoruðu reyndar fyrstu 4 stigin í þriðja…þá hélt ég eins og allir í heiminum að þetta yrði a.m.k. jafn leikur…en þið náðuð að svara mjög vel, Kyle með flottan þrist og fleira…
Þeir komu betur út fyrstu mínútuna eftir hálfleikinn, Hlynur fékk óíþróttamannslega og Kristó setti tvö víti og mér leist ekkert á blikuna og þeir voru að ná momenti…en já, við svöruðum hreint ágætlega fyrir okkur.
Svo voru bara margir leikmenn að blómstra, Tommi var alveg frábær í þessum leik t.d…
Hann hefur átt mjög gott tímabil og það er útaf því að hann átti frábært sumar, hann er bara að uppskera eftir því og þarf bara að halda áfram.
Kyle var líka mjög góður, kannski besti leikur hans fyrir liðið?
Hann var mjög góður í kvöld, grimmur og gaf okkur mikið.
Ég efast nú um að þú missir þig í gleðinni…þetta er bara einn leikur…
Það er alveg á hreinu. Ég ætla að vera rosa glaður núna meðan ég keyri yfir Hellisheiðina og njóta bíltúrsins og sigursins. Svo er bara Reynir Sandgerði í næstu viku.
Að vinna KR með ég veit ekki hvað mörgum stigum…það hlýtur nú að segja að liðið er í góðu standi og það hlýtur að vera betra en ekki þó það sé bara nóvember…
Ykkar job sem blaðamenn er að finna svona einhverjar fyrirsagnir…við spiluðum við Þór Ak sem átti ekki að geta nokkurn hlut og áttu aldrei að vinna leik og við unnum með 3 og þá var allt í skrúfunni hjá okkur..svo vinnum við með 40 og þá erum við helvíti góðir…hver leikur er bara svo breytilegur og getur farið í svo margar áttir…það þýðir ekkert að vera í skýjunum með einn sigur. Það er bara næsti mótherji og ný áskorun og það verður allt öðruvísi. Við spiluðum vel í kvöld og KR illa, það gerist. Við vinnum ekkert KR með 40 í seinni umferð, það vita allir.
Já, ég ætla að leyfa mér að vera sammála þér…ég vil ekki meina að ég sé einhver sérstakur fyrirsagnamaður en við áhorfendur leyfum okkur að spekulera og gera svolítið úr hlutunum…
Að sjálfsögðu, það er þess vegna sem fólk kemur hingað því það vill upplifa eitthvað, sjá eitthvað og hafa gaman en ég fæ ekki greitt fyrir það að missa mig yfir einum sigri…
Að sjálfsögðu ekki – og ekki að ástæðulausu sem Arnar er klárlega einn af bestu þjálfurum landsins.



