spot_img
HomeFréttirÁrmenningar réðu ekkert við Nebo

Ármenningar réðu ekkert við Nebo

KFÍ sigraði Ármann í kvöld í fallslagnum í 1. deildinni, 85-77, og höfðu liðin sætaskiptan í deildinni. Ísfirðingar fóru upp í 8. sæti á meðan Ármenningar fóru niður í það níunda.

Ísfirðingar, sem voru án byrjunarliðsmannana Daníels Midgley og Nökkva Harðarsonar, byrjuðu leikinn talsvert betur og skoruðu 8 fyrstu stigin. En þá hrökk Guðni Sumarliðason í gang hjá gestunum og gerði hann sér lítið fyrir og setti niður þrjár þriggja stiga körfur og 11 stig alls í fyrsta leikhluta. Samtals settu Ármenningar 5 þriggja stiga körfu í leikhlutanum og leiddu í lok hans 22-28.

Eitthvað hafði Birgir Örn Birgisson, þjálfari KFÍ, að segja við sína menn á milli leikhluta því þeir mættu brjálaðir til leiks í byrjun annars fjórðungs og skoruðu 11 fyrstu stigin. Þeir náðu þó aldrei að slíta Ármenninga frá sér og var staðan í hálfleik 44-43 fyrir heimamenn.

Stigahæstir í fyrri hálfleik voru þeir Kjartan Steinþórsson (KFÍ) með 17 stig og Guðni Sumarliðason (Ármann) með 16 stig.
Líklegast fengu leikmenn KFÍ hárþurrkumeðferðina á fullum styrk frá Birgi þjálfara í hálfleik því enn og aftur mættu þeir bandbrjálaðir til leiks í byrjun þriðja leikhluta og skoruðu 15 fyrstu stigin. Fór þar mikinn Birgir Björn Pétursson, sem er nýgenginn til liðs við KFÍ aftur eftir að hafa spilað í Þýskalandi fyrri hluta veturs.

Eftir að hafa lent mest 16 stigum í þriðja þá náðu gestirnir að minnka muninn 4 stig, 81-77, í fjórða leikhluta. Það dugði ekki til því Ármenningar réðu ekkert við Nebojsa Knesevic sem skoraði 18 af 20 stigum KFÍ í lokafjórðungnum auk þess að spila frábæra vörn.

Nebo var klárlega maður leiksins en hann skoraði 32 stig, gaf 5 stoðsendingar og stal 5 boltum. Kjartan kom næstur hjá KFÍ með 19 stig og 7 fráköst og Birgir Björn Pétursson setti 9 stig og tók 11 fráköst. Þess má geta að hinn 46 ára gamli Birgir Örn Birgisson spilaði rúmar 17 mínútur fyrir KFÍ í leiknum og komst vel frá sínu.

Hjá Ármanni var Elvar Steinn Traustason stigahæstur en hann skoraði 21 stig og tók 11 fráköst. Guðni Sumarliðason byrjaði vel en lenti í villuvandræðum og endaði með 18 stig og 10 fráköst. Snorri Páll Sigurðsson skoraði 15 stig og gaf 7 stoðsendingar og Guðni Páll Guðnason setti 8 stig á móti sínu gamla liði.

Tölfræði leiksins

Texti: Tjörvi
Mynd: Halldór Sveinbjörnsson

 

Fréttir
- Auglýsing -