spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÁrmenningar lítil fyrirstaða fyrir ÍR í Laugardalshöllinni

Ármenningar lítil fyrirstaða fyrir ÍR í Laugardalshöllinni

ÍR lagði Ármann í Laugardalshöllinni í kvöld í 7. umferð fyrstu deildar karla, 64-81. Eftir leikinn er ÍR með sex sigra og eitt tap á meðan að Ármann er með einn sigur og sex töp það sem af er deildarkeppni.

Fyrir leik

ÍR hafði gengið afar vel það sem af var tímabili. Við topp töflunnar, aðeins tapað einum leik, en það var gegn Fjölni. Ármann aftur á móti voru á hinum enda deildarinnar með aðeins einn sigur og fimm töp það sem af var tímabili.

Gangur leiks

Það voru gestirnir úr Breiðholti sem byrjuðu leik kvöldsins mun betur. Voru snöggir að skapa sér þægilega forystu og leiddu með 14 stigum að fyrsta fjórðung loknum, 10-24. Gestirnir láta svo kné fylgja kviði undir lok fyrri hálfleiksins, leiða með 25 stigum þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 23-48.

Stigahæstur fyrir ÍR í fyrri hálfleiknum var Oscar Jorgensen með 17 stig á meðan að Devaughn Jenkins var með 8 stig fyrir Ármann.

Segja má að gestirnir hafi ferið langleiðina með að klára leikinn í upphafi seinni hálfleiksins. Fara mest með forskot sitt í tæp 30 stig um miðjan þriðja leikhlutann, en staðan fyrir þann fjórða er 41-68 ÍR í vil. Bæði lið hvíldu nokkuð í fjórða leikhlutanum, en reyndu Ármenningar þó hvað þeir gátu til að minnka bilið. Sem þeim tókst lítillega og voru þeir í raun nokkuð nálægt því að komast inn í leikinn. ÍR fór þó að lokum með nokkuð öruggan sigur af hólmi, 64-81.

Atkvæðamestir

Bestur í liði Ármanns í kvöld var Laurent Zoccoletti með 9 stig, 15 fráköst,5 stolna bolta og 5 varin skot. Honum næstur var Austin Bracey með 6 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar.

Fyrir ÍR var það Lamar Morgan sem dró vagninn með 21 stigi og 7 fráköstum og Oscar Jorgensen bætti við 21 stigi, 4 fráköstum og 6 stoðsendingum.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst á föstudag eftir viku 24. nóvember. Þá fær ÍR Skallagrím í heimsókn í Skógarselið á meðan að Ármann mætir ÍA á Akranesi.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -