spot_img
HomeFréttirÁrmann lagði FSu (Umfjöllun)

Ármann lagði FSu (Umfjöllun)

8:19

{mosimage}

Steinar Kaldal átti góðan leik fyrir Ármann í gær 

 

Ármann og FSu áttust við í Laugardalshöllinni í gærkvöld en Ármann eru í harðri baráttu við að komast í úrslitakeppnina í 1.deild og eru í 6.sæti með 8 stig en FSu eru í 2.sæti í deildinni með 16 stig.

 

Ármann byrjaði af krafti og setti Gunnar Stefánsson tvo þrista strax í upphafi leiks og þegar 2 mín voru eftir af 1.leikhluta var staðan 16-7 fyrir Ármann. En þá setti Ari Gylfason niður tvo þrista og Emil Jóhannsson einn og leikhlutinn endaði 16-17 fyrir FSu.

 

Jafnræði var með liðunum út 2.leikhluta og skiptust liðin á að skora. Maurice Ingram og Steinar Kaldal drógu vagninn fyrir Ármann og var Steinar með 10 stig í leikhlutanum og Maurice með 12 stig. Hjá FSu var Ari Gylfason duglegur að skora með 7 stig og alls 16 í fyrri hálfleik og og Björgvin Valentínusarson með 8 stig. Staðan í hálfleik var 42-43 fyrir FSu.

 

Ármenningar mættu sterkir til leiks í byrjun 3ja leikhluta og skoruðu fyrstu 11 stigin og komust yfir 53-43. Þessa forustu létur þeir síðan ekki af hendi. FSu reyndu að minnka muninn og var Matt Hammer duglegur að skora og hélt FSu inn í leiknum á þessum tímapunkti. Staðan eftir 3ja leikhluta var 72-61.

 

FSu hélt áfram að berjast í 4.leikhluta og neituðu að gefast upp. Með mikilli baráttu tókst þeim að minnka muninn niður í 4 stig, 87-83 þegar 3 mín voru eftir og var Vésteinn Sveinsson duglegur að skora og setti alls 12 stig í 4.leikhluta. En Ármann hélt út og hleypti FSu ekki nær og kláruðu þeir leikinn á vítalínunni þegar Maurice Ingram og Gunnar Stefánsson settu báðir niður vítin sín á síðustu mínútu leiksins.

 

Hjá Ármanni voru það Steinar Kaldal (20 stig, 10 stoðsendingar, 8 stolnir), Maurice Ingram (30 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar), Friðrik Hreinsson (18 stig, 5 fráköst) og Gunnar Stefánsson (10 stig, 5 fráköst) sem stóðu upp úr.

 

Hjá FSu var Matt Hammer sá leikmaður sem var jafngóður út allan leikinn með 17 stig, 5 fráköst, 4 varin skot, 4 stolna og 7 stoðsendingar. Aðrir leikmenn áttu góða spretti og má þar nefna Ara Gylfason með 18 stig, Véstein Sveinsson með 19 stig, Björgvin Valentínusarson með 8 stig (100% nýting) og 9 fráköst.

 

Bryndís Gunnlaugsdóttir

 

Mynd: [email protected]

 

Fréttir
- Auglýsing -