spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaÁrmann hóf tímabilið á fyrsta sigrinum í 11 ár

Ármann hóf tímabilið á fyrsta sigrinum í 11 ár

Fyrsti leikur Íslandsmóts meistaraflokka fór fram í kvöld þegar Ármann tók á móti sameiginlegu liði Hamars og Þór Þ í 1. deild kvenna.

Fyrr í dag var spá deildarinnar birt þar sem Ármann var spáð lang neðsta sæti af forráðamönnum liðanna. Hamar-Þór var spáð fimmta sæti. Það var því von á áhugaverðum leik.

Ármenningar mættu öflugar til leiks og náðu 13-3 forystu snemma með orku sinni og áræðni. Hamar-Þór náði að koma sér fljótlega aftur inní leikinn og leiddu alveg fram að hálfleik. Staðan í hálfleik var 35-30 fyrir Hamri.

Seinni hálfleikur var í járnum, sterkur varnarleikur og mikil barátta. Að lokum var það Ármann sem var sterkari á lokasprettnum og leiddi liðið 57-51 þegar leiktíma lauk.

Jónína Þórdís Karlsdóttir átti virkilega góðan leik fyrir Ármann og endaði með 25 stig og 10 fráköst. Þá var hin 15 ára Auður Hreinsdóttir öflug með 11 stig og 6 fráköst. Hjá Hamri-Þór var hin sí-unga Þórunn Bjarnadóttir með 10 stig og 14 fráköst.

Ármann hefur því endurkomuna í deildina á öflugum sigri, síðast þegar liðið lék í 1. deild kvenna árið 2016 fór liðið án sigurs í gegnum tímabilið en þar á undan var liðið síðast með árið 2009.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Fréttir
- Auglýsing -