spot_img
HomeFréttirAri: Ég er bjartsýnn

Ari: Ég er bjartsýnn

09:41
{mosimage}

(Ari Gunnarsson)

,,Við erum að fara svona langt í keppninni í fyrsta sinn svo þetta er bara mjög spennandi verkefni,“ sagði Ari Gunnarsson þjálfari Hamarskvenna sem nú í fyrsta sinn leika í undanúrslitum í úrvalsdeild kvenna. Nýverið unnu Hamarskonur sinn fyrsta sigur á Haukum í sögu kvennakörfunnar í Hveragerði svo þetta leiktímabil hefur verið eitt í metabækurnar hjá Hvergerðingum og hver veit hvar þetta ævintýri þeirra endar?

,,Við stefnum að því að vinna fyrsta leik rétt eins og maður stefnir á sigur í öllum öðrum leikjum. Við höfum sýnt smá framfarir undanfarið svo ég er bjartsýnn,“ sagði Ari en róður Hamarskvenna eftir áramót var ansi þungur uns Hvergerðingar lönduðu sigri á Haukum að Ásvöllum fyrir skemmstu.

,,Við reyndar skíttöpuðum fyrir KR eftir sigurleikinn að Ásvöllum en svo tókum við Val 2-0 í fyrstu umferð úrslitakeppninnar og unnum það einvígi sannfærandi og það vonandi mun hjálpa okkur í rimmunni gegn Haukum,“ sagði Ari en það eru deildarmeistarar Hauka sem eiga heimaleikjaréttinn en hvað sér Ari að hann þurfi að leggja áherslu á í einvíginu gegn Haukum?

,,Við þurfum að spila hörkuvörn! Vörnin er eitt af því sem ég legg mikið upp úr og ég vona að Hvergerðingar fjölmenni í Hafnarfjörð og hafi stemmningu í stúkunni. Það er nýstofnað stuðningsmannafélag í Hveragerði og þeir hafa verið að kyrja söngva á karlaleikjunum og það væri gaman að fá þá hressa og káta á kvennaleikina,“ sagði Ari kátur í bragði og ljóst að Hvergerðingar láta engan bilbug á sér finna heldur mæta spenntir til leiks í kvöld.

[email protected]

Mynd: [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -