spot_img
HomeFréttirArgentína komið í gang

Argentína komið í gang

16:04
{mosimage}
(Yao Ming og félagar í Kína hafa enn ekki sigrað leik)

Það var fínn leikur sem RÚV bauð upp á í körfuboltanum á ÓL í dag. Argentína og Ástralía áttust við og voru Argentínumenn nokkuð sterkari og unnu góðan sigur 85-68.
Undirritaður var þó með smá hnút í maganum fyrir þennan leik að sjá hvort leikmenn Ástralíu myndu spila í eins búningum og kvennalið þeirra. Undirritaður róaðist þegar hann kveikti á skjánum og sá að hann þyrfti ekki að horfa á fullvaxta karmenn í spandexgöllum.

Heil umferð var spiluð í nótt og var leikur Ástralíu og Argentínu síðasti leikurinn í umferðinni. Litháar sigruðu Írana örugglega, 99-67 og var Linas Kleiza (Denver Nuggets) atkvæðamestur Litháa með 22 stig og 8 fráköst.
Hjá Írönum var Hamed Ehadadi lang bestur með 21 stig, 9 fráköst og 4 varin skot.

Króatar unnu góðan sigur á Rússum 85-78 og voru þeir Marko Popovic og Zoran Planinic bestir Króata. Popovic skoraði 22 stig og Planinic 20.
Hjá Rússum var Andrei Kirilenko (Utah Jazz) með 18 stig og 6 fráköst.

Grikkir sigruðu Þjóðverja með 87 stigum gegn 64. Aftur var Vassilis Spanoulis allt í öllu hjá Grikkjum en hann skoraði 23 stig og var með 5 stoðsendingar.
Hjá Þjóðverjum var Dirk Nowitzki atkvæðamestur með 13 stig og 6 fráköst.

Spánn sigraði Kína 85-75 og var Pau Gasol óstöðvandi. Gasol setti niður 29 kvikindi og tók 8 fráköst. Wei Liu var atkvæðamestur Kínverja með 19 stig.

Bandaríkin sigruðu Angola með 97 stigum gegn 76. Dwyane Wade var stigahæstur í liði Bandaríkjanna með 19 stig og Carlos Morais var með 24 fyrir Angola.

Í sjónvarpsleik dagsins byrjuðu Argentínumenn af fullum krafti og leiddu eftir fyrsta leikhluta með 12 stigum, 23-11.
Luis Scola leikmaður Houston Rockets fór hamförum í fyrsta leikhluta og skoraði 7 af fyrstu 9 stigum Argentínu sem leiddu 9-1 eftir 2 og hálfa mínútu og náðu mest 18 stiga forskoti.
Ástralía herti sinn leik í öðrum leikhluta og sigraði leikhlutan með 2 stigum 16-18 og var 39-29 í hálfleik.
Scola var búinn að skora 13 stig í hálfleik og Oberto (San Antonio Spurs) 10. Hjá Áströlum var Newley (Panionios (GRI)) með 7 stig í hálfleik.
Argentínumenn heldu uppteknum hætti í seinni hálfleik og sigruðu örugglega 85-68. Ginobili var stigahæstur Argentínumanna með 21 stig og hjá Ástralíu var Mills stigahæstur með 22 stig.

Staðan í riðlunum er þá þannig að Litháen og Króatía eru með 4 stig, Rússar og Argentína með 3 og Ástralía og Íran hafa 2 í A-riðli og í B-riðli eru Bandaríkin og Spánn með 4 stig, Grikkir og Þjóðverjar með 3 og Angola og Kína hafa 2.

Stigagjöfin er þannig að liðin fá 2 stig fyrir sigur og eitt fyrir að vera með.

Mynd: fiba.com

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -