spot_img
HomeFréttirÁrangurinn er ekki mældur á stigatöflunni heldur í gæðum leiksins

Árangurinn er ekki mældur á stigatöflunni heldur í gæðum leiksins

12:05
{mosimage}

Ágúst Sigurður Björgvinsson, landsliðsþjálfari kvenna, í ítarlegu viðtali hjá Karfan.is  

Í desember á síðasta ári tók Ágúst Sigurður Björgvinsson við A-landsliði Íslands í kvennakörfuknattleik. Síðan þá hefur landsliðið æft jafnt og þétt og segja margir að kvennalandsliðið hafi aldrei átt jafn langan og strangan undirbúning fyrir mót. Framundan eru stór verkefni. Norðurlandamótið í Danmörku í ágústbyrjun og í lok ágústmánaðar hefst riðlakeppnin í B-deild Evrópukeppninnar. Ágúst segir í ítarlegu landsliðsviðtali við Karfan.is að árangurinn sé ekki mældur með því að líta á stigatöfluna eftir staka leiki heldur verði að hlúa vel að þeim leikmönnum sem í dag skipa liðið. 

,,Ég byrjaði fyrst að þjálfa 18 ára landslið kvenna árið 2002 og það lið lék m.a. á Promotion Cup og eftir það fór liðið á EM og vann það mót með miklum yfirburðum,” sagði Ágúst um upphaf sitt sem landsliðsþjálfara á vegum KKÍ. Nú hefur hann tekið við A-landsliðinu og senn styttist í fyrsta stóra verkefnið, Norðurlandamótið. 

,,Líkast til er þetta stífasta og lengsta undirbúningstímabil sem íslenska kvennalandsliðið hefur farið í gegnum. Liðið hefur ekki æft svona áður og sumarprógrammið hefur gegnið rosalega vel. Við ákváðum að velja stóran hóp í upphafi,” sagði Ágúst en alls voru 30 leikmenn boðaðir á úrtaksæfingar aðeins nokkrum dögum eftir að Ágúst gerði fjögurra ára samning við KKÍ um þjálfun A-landsliðsins. ,,Við ákváðum að taka margar stelpur inn og gefa mörgum tækifæri,” sagði Ágúst en aðstoðarþjálfari hans er Finnur Stefánsson. Þann 4. ágúst næstkomandi hefst Norðurlandamótið og fyrsti leikur hjá íslenska liðinu er 6. ágúst og leikið verður fjóra daga í röð. Fyrsti leikur landsliðsins undir stjórn Ágústar og Finns í riðlakeppni B-deildarinnar fer svo fram þann 27. ágúst.  

Frumkvæðið einnig frá landsliðsnefnd 

Það dylst fæstum að Ágúst er metnaðarfullur þjálfari enda hefur hann unnið allt hérlendis í kvennakörfuknattleik sem hægt er að vinna. Fyrirfram var því augljóst að bæði hann og leikmenn A-landsliðsins myndu á þessum fjögurra ára samningstíma ekki sitja auðum höndum. ,,Landsliðið kom saman um jólin á úrtökuæfingar og kom svo aftur saman skömmu eftir tímabilið í Iceland Express deild kvenna. Æfingarnar hafa verið fjölbreyttar og ólíkar því sem leikmennirnir ættu að venjast hjá sínum félagsliðum og margt hefur verið nýtt fyrir þeim. Núna þegar við förum að nálgast mótin þá breytist þetta því við höfum verið mikið í einstaklingsæfingum, núna erum við farin að einbeita okkur meira að liðinu,” sagði Ágúst en var þetta mikla æfingaálag algerlega að hans frumkvæði? 

,,Þegar landsliðsnefndin kom að máli við mig var nefndin mjög áhugasöm og metnaðargjörn og var tilbúin að taka næsta skref með kvennaliðið. Frumkvæðið kom s.s. líka frá landsliðsnefndinni en ekki bara mér,” sagði Ágúst en æfingadagskrá landsliðsins var nánast tilbúin í desember, skömmu eftir að Ágúst var ráðinn.  

,,Ef þú ætlar þér mikla hluti þarftu að leggja mikið á þig og vera skipulagður. Leikmenn landsliðsins þurfa líka frí eftir langan vetur í körfunni en það er vel hægt að skipuleggja frí langt fram í tímann,” sagði Ágúst sem hefur lítið séð til hinna Norðurlandaþjóðanna. ,,Ég er að þjálfa A-landsliðið í fyrsta skipti og hef því aðeins séð leiki sem farið hafa fram hér á landi. Annars hef ég ekki séð þessi lönd sem við munum mæta en ég veit að t.d. Svíþjóð og Finnland eru með mjög sterk lið,” sagði Ágúst og því verður gnótt erfiðra leikja strax á Norðurlandamótinu fyrir íslenska liðið. 

{mosimage}

Samanburðurinn við kvennaknattspyrnuna ósanngjarn 

Íslenska A-landsliðið í kvennaknattspyrnu hefur átt gríðarlega góðu gengi að fagna undanfarið. Er eitthvað í fari kvennaknattspyrnuliðsins sem körfuboltaliðið getur nýtt sér eða vonast eftir viðlíka árangri? 

,,Þetta er virkilega góð spurning en kannski ekki sanngjarnt að bera saman þessar tvær íþróttagreinar. En það er klárlega margt sem við og stelpunar getum tekið okkur tilfyrirmyndar sem fótboltastelpunar hafa náðað gera. Það er ósanngjarnt að bera þessar íþróttir saman því eins og kannski fæstir vita þá er kvennakörfubolti mun stærri en kvennafótbolti og mun eldri íþrótt! Það er alltaf erfitt fyrir okkur á Íslandi að koma liði á stórmót og fyrir okkur sem smáþjóð í körfubolta er það í raun óraunhæft einsog staðan er í dag. Auðvitað væri það alltaf draumur að komast á þannig mót en segjum að við t.d. komumst upp úr B-keppninni með sigrum gegn þjóðum á borð við Slóveníu og Holland, þá erum við ekki endilega komin inn á stórmótið. Þá væru eftir undankeppnir á meðal A-þjóða og þar eru andstæðingar sem eru komnir mun lengra en við í íþróttinni,” sagði Ágúst en segir að körfuboltalandsliðið geti vel nýtt sér árangur kvennalandsliðsins íknattspyrnu. 

,,Leikmennirnir í körfuboltalandsliðinu geta notað árangur knattspyrnuliðsins semhvatningu. Þó ber að nefna að fjárhagslega stendur KSÍ mun betur en KKÍ og því meiripeningar til skiptanna í kringum knattspyrnulandsliðið, í raun margfaldir á við þaðsem gerist í körfuboltanum,” sagði Ágúst.  

Aðalatriðið að halda liðinu saman 

Verandi smáþjóð í körfuknattleik með takmarkaðar vonir um að komast inn á stórmót segir Ágúst að mikilvægt sé að halda þessu unga og efnilega landsliði við efnið og halda hópnum samheldum til nokkurra ára. ,,Við erum með rosalega ungt lið í höndunum, þær elstu eru Signý Hermannsdóttir 29 ára og Hildur Sigurðardóttir 28 ára. Þær eru alls ekki svo gamlar miðað við körfuboltamenn og í raun á hátindi ferils síns. Flestir aðrir leikmenn liðsins eru fæddir árið 1985 eða síðar. Til þess að ná einhverjum árangri með þetta lið er aðalatriðið að halda liðinu saman í meira en eitt til tvö ár,” sagði Ágúst en eins og flestum er kunnugt er nokkuð um brottfall í kvennaíþróttum. 

,,Ég myndi vilja sjá þetta landslið í dag spila með Signýju og Hildi í að minnsta kosti 4-5 ár í viðbót og á þeim tíma ertu kominn með unga sterka leikmenn sem verðaorðnir mun þroskaðri sem íþróttamenn, sterkari og fljótari með réttri æfingu,” sagði Ágúst og talið barst því næst að þeim Maríu Ben Erlingsdóttur og Helenu Sverrisdóttur sem báðar stunda nám í Bandaríkjunum og eru að spila með sterkum skólum.

Mikilvægt að sjá eitthvað annað og meira 

,,Það er ekki spurning að það sé jákvætt fyrir okkur að fleiri stelpur séu farnar að fara erlendis. Við ættum með því að fá fleiri góðar stelpur og ég hef trú á því að t.d. dvöl Helenu og Maríu erlendis muni bara lengja þeirra feril,” sagði Ágúst en sem dæmi þá hóf Helena Sverrisdóttir 14 ára gömul að leika í úrvalsdeild.  

,,Helena hefur unnið allt sem hægt er að vinna á Íslandi og fyrir þessar stelpur er mjög mikilvægt að sjá og upplifa að það sé eitthvað meira í boltanum en bara Ísland. Þetta er mikil gultrót að komast út í skóla og eftir námið standa þessum einstaklingum allar dyr opnar,” sagði Ágúst.  

{mosimage}

Hvernig verður liðið eftir 5 ár? 

,,Það eru margar efnilegar stelpur í landsliðinu í dag og Helena Sverrisdóttir er klárlega einn efnilegasti leikmaðurinn í Evrópu ef ekki öllum heiminum. Þá er hún einnig efnilegasti leikmaðurinn hér heima að karlaboltanum meðtöldum. Það hafa fáir strákar spilað nýlega í jafn góðu háskólaprógrammi og Helena og sá síðasti var líklega Pétur Guðmundsson,” sagði Ágúst og bætti við að efniviðinn vantaði ekki. 

,,Ég spyr bara, hvernig verður þetta landslið eftir 5 ár? Íslenska A-landsliðið er í dag í raun U 20 ára landsliðið okkar að langstærstum hluta. Við færum með svakalegt lið á mót í flokki 20 ára en það er ekki hægt af fjárhagslegum ástæðum. Þetta U 20 ára lið okkar myndi klárlega keppa um að vera A-þjóð í körfuknattleik. Til þess að byggja upp A-landsliðið hefðu þessi verkefni verið mjög spennandi og skemmtileg en þetta strandaði eins og áður segir á fjármagni.” 

Þegar þjálfarasamningi við Ágúst Björgvinsson lýkur hjá KKÍ munu þessir leikmenn sem skipa A-landsliðið í dag hafa leiki marga stórleiki á alþjóðlegum vettvangi. Sjálfur vill Ágúst helst leika um a.m.k 10 landsleiki á ári hverju en þar kemur sama gamla tuggan um fjármagnið. Hann vill þó ekki mæla vonirnar og væntingarnar eftir því sem fram kemur á stigatöflunni í hverjum leik. 

,,Árangur er ekki mældur með því sem sést á stigatöflunni eftir staka leiki heldur í gæðum leiksins. Ég tel að nú þegar hafi leikmenn landsliðsins náð gríðarlega miklum árangri. Það eru 19 stelpur sem hafa lagt á sig mikla vinnu í lengra og strengra æfingaprógrammi en áður hefur sést hjá kvennalandsliðinu og þær hafa bætt sig gríðarlega sem einstaklingar. Fyrir mér er ekkert skemmtilegra en að sjá unga einstaklinga bæta sig sem persónur og körfuboltamenn. Það hefur ávallt verið mitt aðalmarkmið þegar ég þjálfa en ekki að vinna leiki og titla þó það sé vissulega gaman,” sagði Ágúst og sagði leikmenn kvennalandsliðsins í körfubolta eiga mikinn heiður skilinn. 

,,Ég bíð spenntur að sjá landsliðskonurnar mæta til leiks í vetur og sjá í deildarkeppninni hvort og hvernig þær hafa bætt sig. Þær eiga mikinn heiður skilinn fyrir að leggja á sig alla þessa vinnu. Þær mæta kannski á æfingu fyrir vinnu á morgnana, klára vinnudaginn og mæta svo aftur á æfingu um kvöldið vitandi það að ekki fara allir með í landsliðsverkefnin. Þó er það ekki spurning að allir þessir leikmenn munu njóta góðs af þessu þegar fram líða stundir,” sagði Ágúst og vafalítið verður fróðlegt að fylgjast með kvennalandsliðinu á næstu tveimur mótum sem framundan eru. 

{mosimage}

Nýverið kom hópurinn heim úr æfingaferð í Borgarnesi og var hópurinn þá skorinnniður í 14 leikmenn sem eru eftirfarandi: 

Bakverðir:

Helena Sverrirsdóttir, Haukar/TCU

Hildur Sigurðardóttir, KR

Ingibjörg Jakobsdóttir, Grindavík

Pálína Gunnlaugsdóttir, Keflavík

 

Litlir framherjar:

Jovana Lilja Stefánsdóttir, Grindavík

Kristrún Sigurjónsdóttir, Haukar

Margrét Kara Sturludóttir, Keflavík

Petrúnella Skúladóttir, Grindavík

 

Stórir framherjar:

Fanney Lind Guðmundsdóttir, Hamar

Helga Einarsdóttir, KR

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir, KR

 

Miðherjar:

María Ben Erlingsdóttir, Keflavík/UTPA

Ragna Margrét Brynjarsdóttir, Haukar

Signý Hermannsdóttir, Valur 

 

Fyrir Norðurlandamótið verður hópurinn svo skorinn niður í 12 leikmenn sem þýðir að tveir af fjórtán ofangreindum leikmönnum detta út úr hópnum.

 

Viðtal: Jón Björn Ólafsson, [email protected]

Myndir: [email protected] og [email protected]

Fréttir
- Auglýsing -