spot_img
HomeFréttirAnthony Davis segist verða klár í leik sunnudagsins þrátt fyrir meiðslin

Anthony Davis segist verða klár í leik sunnudagsins þrátt fyrir meiðslin

Miami Heat lögðu Los Angeles Lakers með 3 stigum í gærnótt, 111-108, í fimmta leik úrslitaeinvígis liðanna um NBA meistaratitilinn. Lakers hefðu með sigri geta tryggt sér titilinn, en staðan er nú 3-2, þeim í vil. Næsti leikur liðanna er á morgun sunnudag kl. 23:30.

Stjörnuleikmaður Lakers Anthony Davis meiddist í upphafi leik næturinnar á hæl. Mun það vera um upptöku á meiðslum sem hafa verið að hrjá hann á þessu ári. Margir óttuðust það versta þegar að Davis fór niður í leiknum, en bæði virtist hann sárkvalinn, sem og var hann hægur á lappir og eyddi góðum tíma á bekknum áður en hann kom inn á aftur.

Þetta kom þó ekki að meiri sök en það að í leiknum skilaði hann 28 stigum og 12 fráköstum á 42 mínútum spiluðum í leiknum, þrátt fyrir að sjáanlega ætti hann við einhver vandamál að stríða. Í samtali við fjölmiðla eftir leik sagði þjálfari Lakers Frank Vogel að Davis hafi átt erfitt með að hreyfa sig á vellinum, en að athugað verði í dag hvernig leikmanninum líði.

Davis sjálfur gaf þó engin slík svör er fjölmiðlar spurðu hann út í meiðslin eftir leik, sagði hann afdráttarlaust að hann yrði klár í leikinn á sunnudag. Hvort sem af verður í leik morgundagsins skal ekki segja, en sjötti leikur liðanna hefst kl. 23:30 annað kvöld.

Fréttir
- Auglýsing -