21:24
{mosimage}
(Jón Arnór fór að vanda mikinn í liði KR)
Íslandsmeistarar Keflavíkur voru lítil fyrirstaða fyrir KR maskínuna í 8-liða úrslitum Subwaybikarsins í kvöld. KR rassskellti gesti sína 95-64 eftir nokkurn hægagang í upphafi leiks en þegar þeir komust á bragðið var ekki aftur litið og Keflvíkingar voru skyldir eftir í reykjarkófi. Ekkert lið hefur til þessa sýnt að það hafi taugar né úthald í það að hlaupa með KR í 40 mínútur. Mörg lið hafa gert KR skráveifu en það er allt og sumt. Yfirburðir KR-inga voru magnaðir og vel til þess fallnir að bjóða velkomna í DHL-Höllina nýja og glæsilega stafræna leikklukku sem tekin var í gagnið í kvöld.
Gestirnir úr Keflavík voru sprækari í upphafi leiks og börðust af krafti. Jón N. Hafsteinsson var reyndar fljótur að næla sér í þrjár villur í fyrsta leikhluta og hafði eftir það hægt um sig í fyrri hálfleik. Stemmningin var þó Keflavíkurmegin og Sigurður Þorvaldsson átti teiginn og varði hvert skotið á fætur öðru fyrir Keflavík. Gestirnir sigu rólega framúr og nýttu vel sóknardepurð heimamann og leiddu 14-22 eftir fyrsta leikhluta þar sem Jón Arnór Stefánsson náði þó að klóra í bakkann fyrir KR með flautuþrist.
Jón Arnór hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta og með þristinum frá fyrsta leikhluta gerði hann 11 næstu stig KR í röð og toppaði þetta stigafyllerí hjá sér með glæsilegri troðslu og KR var komið á bragðið. Fannar Ólafsson jafnaði metin í 24-24 og heimamenn komnir í gírinn. Keflvíkingar gerðu hver mistökin á fætur öðrum í sókninni og KR-ingar refsuðu grimmilega. Liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 41-32 fyrir KR sem unnu leikhlutann 27-10 og Keflvíkingar vart svipur hjá sjón miðað við upphafsleikhlutann.
Sigurður Þorsteinsson fékk dæmda á sig klaufalega fjórðu villu þegar ein sekúnda lifði af fyrri hálfleik en annars var hann stigahæstur Keflvíkinga með 12 stig í hálfleik en Jón Arnór Stefánsson var með 13 hjá KR sem hertu tökin með hverri mínútu í vörninni og gerðu Keflvíkingum lífið afar leitt.
{mosimage}
Sverrir Þór Sverrisson minnkaði muninn í 45-37 með þriggja stiga körfu fyrir Keflavík en eftir það skildu leiðir. KR voru miklu grimmari í fráköstum á báðum endum vallarins og hvorki gekk né rak í sóknarleik Keflavíkur gegn sterkri KR vörninni. Helgi Már Magnússon breytti stöðunni í 62-48 og Jón Arnór Stefánsson bauð upp á aðra flautukörfu með gegnumbroti og lauk þriðja leikhluta 67-49 fyrir KR og björninn unninn.
Í fjórða leikhluta var þetta einvörðungu spurning um hversu stór sigur KR yrði og á daginn kom 31 stiga sigur 95-64 en Keflvíkingar köstuðu snemma inn handklæðinu í fjórða leikhluta og biðu óþreyjufullir eftir því að rassskellingunni lyki!
KR er því komið í undanúrslit Subwaybikarsins og fátt ef nokkuð sem viriðist geta stöðvað þá á leið sinni í Laugardalshöll. Jón Arnór Stefánsson og Jason Dourisseau voru stigahæstir hjá KR með 20 stig en Fannar Ólafsson átti góðan dag með 16 stig og 9 fráköst. Hjá Keflavík var Sigurður Gunnar Þorsteinsson með 17 stig og 12 fráköst. Næstur honum í liði Íslandsmeistaranna var Jón N. Hafsteinsson með 12 stig og 3 fráköst.
Athygli vakti að Keflavík skoraði aðeins úr 3 af 18 þriggja stiga skottilraunum sínum í leiknum á meðan KR-ingar settu niður 11 þrista í 26 tilraunum.
Tölfræði leiksins:
http://server4.mbt.lt/prod/kki/index.php/b19sYW5nPWhlJm9fc2Vhcz0yMiZvX2xlYWc9MTkmZnVzZWFjdGlvbj1nYW1lcy5tYWluJmdfaWQ9NDQ0
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
{mosimage}
(Nýja leikklukkan er hin veglegasta í DHL-Höllinni)