,,Ég geri bara það sem þarf til að vinna, ef liðsfélagar mínir þurfa á því að halda að ég frákasti þá reyni ég það og ef liðið þarf á því að halda að ég skori þá reyni ég það líka. Í þessum leik var það að skora," sagði Jence Ann Rhoads leikstjórnandi Hauka sæl í bragði eftir sigur Hafnfirðinga á Keflavík í Iceland Express deild kvenna í kvöld. Jence fór á kostum með 29 stig, 2 fráköst og 2 stoðsendingar.
En sigurinn kom ekki að kostnaðarlausu í s.b.v. meiðsli Írisar og Guðrúnar.
,,Ég hef ekkert heyrt enn um stöðuna á þeim en við vonum það besta og þessi meiðsli Írisar virðast geta orðið mikið áfall enda er hún á meðal okkar bestu leikmanna og ég vona að hún nái sér fljótt," sagði Jence en hverju þurfa Haukar nú að einbeita sér að til að tryggja sætið í úrslitum?
,,Nú þurfum við að einbeita okkur að því að leika grimma vörn, við þurfum að stöðva þeirra stigahæstu leikmenn. Keflvíkingar vilja skjóta þristum og við verðum að halda áfram að taka það frá þeim ásamt því að halda okkar dampi og leika eins vel og við getum fyrir okkar meiddu liðsfélaga," sagði Jence en leikurinn í kvöld var harður, býst hún jafnvel við meiri hörku á miðvikudag?
,,Já ég held að sá leikur muni einkennast af mikilli hörku, þessi leikur í kvöld var t.d. harðari en fyrsti leikurinn og þetta verður erfiðara með hverjum leiknum en vonandi berjum við okkur í gegnum það því við gerum okkur fulla grein fyrir því að Keflvíkingar mæta tilbúnir í leik þrjú."
Nú hefur það mikið verið rætt að skipa Elam út fyrir Jenkins hafi gjörbreytt Haukaliðinu til hins betra. Er það eitthvað fleira í ykkar herbúðum sem hefur verið að lagast og skýrir þetta fína gengi á Haukum heldur en bara þessi leikmannaskipti?
,,Ég held að við séum bara að leika af meiri krafti þessa dagana og vissulega hafa æfingarnar verið jákvæðari upp á síðkastið og andinn í klefanum góður. Hugarfarið breyttist svolítið með nýjum leikmanni og þessar breytingar ollu því að við breyttumst með og til hins betra."
Anna María: Við erum ekkert að fara í sumarfrí
,,Jú ef við höfum einhvern tíma verið með bakið uppi við vegg þá er það núna," sagði Anna María Sveinsdóttir aðstoðarþjálfari Keflavíkur eftir tap deildarmeistaranna í Schenkerhöllinni í kvöld. Keflvíkingar eru því undir 0-2 gegn Haukum og þurfa að gera nánast hið ómögulega til að komasta í úrslit, vinna þrjá leiki í röð!
,,Það er skítakuldi úti og við erum ekkert að fara í sumarfrí! Það var margt jákvætt í leiknum hjá okkur í kvöld því við vorum að spila mikið betur heldur en við höfum gert undanfarna leiki. Það var barátta og gleði í liðinu en Haukar voru sterkari og höfðu þetta. Við stigum þær mjög vel út fyrstu þrjá fjórðungana en í fjórða þá bara drápu þær okkur í sóknarfráköstum og það var munurinn að þessu sinni," sagði Anna.
Haukar ætla greinilega ekki að hleypa Keflavík í neinn þriggja stiga leik í þessari seríu.
,,Alls ekki og við skorum ekki eina þriggja stiga körfu í kvöld en þá verðum við bara að fara aðrar leiðir. Þetta er ekki flókið," sagði Anna en fannst henni lIðið svara illa varnarleik Hauka?
,,Mér fannst við gera vel, við forum að fara í teiginn og vorum að fá frí skot en okkur vantaði þriggja stiga skot þó leikurinn gangi vissulega ekki út á það eingöngu," sagði hún en Keflavík er ekkert á leið í gegnum heila úrslitakeppni þar sem boltinn vill ekki ,,detta."
,,Nei, við förum bara sprækar í næsta leik og ætlum að vinna hann. Við þurfum að vinna þrjá en byrjum á því að vinna einn."
Mynd/ [email protected]



