spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaAndy Johnston er mættur aftur í Dominos deildina "Akureyri er æðislegur staður"

Andy Johnston er mættur aftur í Dominos deildina “Akureyri er æðislegur staður”

Þór Akureyri samdi í sumar við Andrew Johnston um stýra liðinu í komandi átökum í Domino´s deildinni. Andrew er 55 ára gamall bandaríkjamaður sem hefur áður verið við þjálfun á Íslandi en hann þjálfaði meistaraflokka karla og kvenna hjá Keflavík 2013-2014. Samdi félagið við Johnston til þriggja ára.

Johnston kom norður á Akureyri til liðsins nú í lok ágúst, en tímabilið í Dominos deild karla fer af stað í byrjun október. Karfan heyrði í honum og spurði hann út í hvernig það væri að vera kominn aftur til Íslands.

Það eru nú komin nokkur ár síðan þú þjálfaðir síðast á Íslandi. Hvað hefur þú verið að gera og hvernig kom það til að þú tekur við liði Þórs Akureyri?

“ Já, það eru 6 ár síðan ég bjó síðast á Íslandi. Tíminn líður svo sannarlega hratt. Þegar ég kom til New York frá Íslandi hafði ég ráðgert að taka mér árs frí frá þjálfun, en einn af mínum bestu vinum var þá ráðinn sem aðalþjálfari Marist háskólans í Poughkeepsie og hann bað mig um að vera með sér þar, svo ég var fjögur ár sem aðstoðarþjálfari þar. Eftir það tók ég svo þetta árs frí mitt áður en ég fór svo til Ura í finnsku Korsiliga deildina fyrir síðasta tímabil sem aðstoðarþjálfari. Þar tók ég svo við sem aðalþjálfari þegar að 10 leikir voru eftir af tímabilinu, en vegna faraldursins var því aflýst tveimur leikjum seinna. Síðan var það ekki mögulegt fyrir mig að halda áfram með liðið vegna þess að ég er ekki með það sem kallað er finnska A prófið í þjálfun og finnska körfuknattleikssambandið var ekki reiðubúið að veita neinar undanþágur”

“Það var lukkulegt að Ágúst Guðmundsson hafði samband við mig, en fyrrum formaður minn hjá Keflavík, Falur Harðarson, hafði verið að hjálpa Þór í leit að þjálfara og bent þeim á mig. Ég er mjög þakklátur fyrir tækifærið sem Hjálmar Pálsson og stjórnin hjá Þór veitir mér”

 Hafðir þú saknað einhvers frá Íslandi?

“Það sem maður saknað mest var fólkið sem maður kynntist og allir vinirnir sem maður eignaðist þegar ég bjó þar, en ég hef þó verið í sambandi við þá í gegnum árin og þá hef ég einnig komið í fjölmög skipti til Íslands til þess að skoða leikmenn”

Hefur þú eitthvað náð að fylgjast með deildinni á síðustu árum og finnst þér hún eitthvað hafa breyst síðan þú varst hér síðast?

“Ég hef fylgst með deildinni síðustu ár, aðallega hvernig Keflavík var að ganga, einnig með einstökum leikmönnum sem ég kannast við. Hef ekki ennþá haft tíma í að skoða nýlega leiki í deildinni á myndbandi, þar sem að við höfum verið í því að klára samninga við þá leikmenn sem verða með liðinu í vetur. Áætlunin er þó að horfa á síðasta tímabil á næstu vikum, hef heyrt þetta hafi breyst nokkuð með tilkomu fleiri erlendra leikmannaa, hlakka til að sjá hversu mikið”

Nú hefur Þór verið í mikilli baráttu í neðri hluta deildarinnar síðastliðin tímabil, þar sem þeir hafa þó náð að halda sæti sínu í deildinni, þvert á spár. Hvaða tilfinningu hefur þú fyrir komandi tímabili, hver eru markmið ykkar fyrir komandi vetur?

“Markmiðið okkar er að komast í úrslitakeppnina, en einbeita okkur frekar að frammistöðu heldur en úrslitum. Vonandi náum við að verða eins góðir eins og við mögulega getum, þá bæði sem einstaklingar og saman sem lið hér fyrir félagið. Á minni ábyrgð er að blanda saman uppöldum leikmönnum og þeim erlendu leikmönnum sem verða með liðinu á sem bestan hátt. Sigrar og töp  sjá um sig sjálf. Kjarni íslenskra leikmanna liðsins er mjög ungur, svo vonandi, með hjálp aðstoðarþjálfara liðsins, Daníels Halldórssonar og Hlyns Friðrikssonar, náum við að þróa þá eitthvað sem leikmenn í vetur. Þar sem kjarninn er svo ungur, þá skiptir það höfuðmáli að sem einstaklingar verði þeir betri”

“Líkt og með öll lið í öllum deildum, þurfum við að geta keppt á stóra sviðinu og sýnt stöðugleika, hvort sem við erum tuttugu stigum yfir eða tuttugu stigum undir. Annað er ekki til umræðu. Þurfum að vera klárir varnarlega, passa upp á villur og taka fráköst. Við munum leika fágaða sókn, sem mun taka tíma að læra og verða góðir í. Svo að ég geri ráð fyrir að það verði áskorun, vegna þess hversu seint æfingar eru komnar af stað og leikmenn eru enn að koma til landsins, en ég geri þó ráð fyrir að liðið komi til með að verða talsvert betra á leiðinni”

“Líkt og önnur lið, þá þurfum við að forðast meiðsl. Tel að ef að við náum því, þá eigum við góð möguleika á að komast í úrslitakeppnina”

Nú hefur þú aðeins verið með liðinu í viku, en þó aðeins mánuður í fyrsta leik. Hvernig finnst þér liðið vera að koma saman síðan þú komst?

“Eftir aðeins 9 æfingar og erlenda leikmenn að lenda nú um helgina, er ég mjög ánægður með viðhorf og hversu vel þessir ungu leikmenn leggja sig fram. Við erum að æfa nýja sókn, á auknum hraða, með ungum kjarna leikmanna, en ég er mjög ánægður hversu fúsir þeir eru að leggja það á sig. Akureyri er æðislegur staður, með yndislegu fólki og við erum með stjórn sem stendur þétt við bakið á okkur. Hlakka til framtíðarinnar hér”

Fréttir
- Auglýsing -