Ísland U18 drengja tapaði með þrjátíu stigum gegn Svíþjóð á Norðurlandamótu yngri flokka sem fram fer í Finnlandi þessa dagana. Íslenska liðið byrjaði vel en leikiur liðsins gjörsamlega hrundi eftir fyrsta leikhluta.
Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:
Gangur leiksins:
Fyrsti leikhluti var í jafnvægi og íslenska liðið örlítið framar ef eitthvað er. Vörn liðsins var mjög fín og skotin voru að detta, staðan eftir fyrsta leikhluta 17-12 fyrir Íslandi. Það skal svo ekkert skafað af því hér. Annar hálfleikur var ömurlegur hjá íslenska liðinu. Svíþjóð byrjaði leikhlutann 18-2 áhlaupi sem Ísland átti engin svör við.
Vörn Íslands varð eins og gatasigti og sóknarleikurinn tilviljannakendur og óagaður. Allur vindur var úr íslenska liðinu sem gat ekki sett saman áhlaup til að bjarga lífi sínu í þessum leikhluta. Ísland tapaði leikhlutanum 28-7 og staðan því orðin 40-24 fyrir Svíþjóð í hálfleik.
Ekki batnaði það mikið í þriðja leikhluta. Stemmningin var góð í byrjun en um leið og skotin duttu ekki og flautin komu ekki, fór hausinn með. Vonleysi og stemmningsleysi ríkti og leikurinn rann hratt síðustu mínúturnar. Lokastaðan 80-50 fyrir Svíþjóð og stórt tap staðreynd.
Tölfræðin lýgur ekki:
Ísland tapar 21 bolta í leiknum og hittir ákaflega illa. Vítanýtingin sveik liðið agalega enn og aftur, liðið hitti þremur af tíu skotum sínum af vítalínunni. Ísland var með fjórar villur í fyrri hálfleik og voru alltof langt frá sínum mönnum.
Maður leiksins:
Bjarni Guðmann Jónsson og Sigvaldi Eggertsson voru einu mennirnir með rænu í íslenska liðinu í dag. Bjarni var eini leikmaðurinn með 0 í +/- tölfræðinni var með 11 stig, 6 fráköst og 71% nýtingu. Sigvaldi átti fína innkomu og var stigahæstur í liðinu með fjórtán stig og þrjú fráköst.
Kjarninn:
Það er engin vafi á að þeir leikmenn sem eru í þessu U18 liði hafa mikla körfuboltahæfileika. Vandamál þeirra er andlegt, liðið virtist skíthrætt við leikmenn Svíþjóðar og koðnaði ítrekað undir misákveðnum áhlaupum Svíþjóðar. Sóknarleikurinn var virkilega óagaður og snerist aðallega um einstaklingsframtak. Vörnin átti nokkur augnablik en þess á milli urðu leikmenn litlir í sér og gáfu auðveldar körfur.
Á morgun mætir liðið Danmörku sem er einnig án sigurs í keppni U18 liða. Það er heilmikið spunnið í þetta lið og virkilega efnilegir leikmenn sem þurfa að skerpa einbeitinguna og viðhorfið.
Viðtöl eftir leik:
Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ólafur Þór Jónsson