spot_img
HomeFréttirAndlát: Jón Jörundsson

Andlát: Jón Jörundsson

ÍR-ingurinn Jón Jörundsson lést þann 21. maí síðastliðinn 69 ára gamall eftir erfið veikindi. Minnist félagið hans með færslu á samfélagsmiðlum í gær.

Færsluna er hægt að lesa hér fyrir neðan, en Jón hóf að leika fyrir meistaraflokk félagsins 18 ára gamall árið 1972 og lék allt til ársins 1986. Þá lék hann með landsliði Íslands á þessu tímabili, 1976 til 1981, 30 leiki. Einnig starfaði hann sem þjálfari hjá félaginu, síðast meistaraflokka karla og kvenna tímabilið 1990-91.

Jón Jörundsson var uppalinn ÍR-ingur og hóf leik með meistaraflokki frá haustinu 1972 þá á 18. ári. Hans eldskírn var meðal annars í leikjum gegn stórliði Real Madrid í nóvember það ár.

Jón varð fljótlega einn af máttarstólpum liðsins, hávaxinn skytta með eitraða vinstri hönd. Hann vann til þriggja íslandsmeistaratitla og var landsliðsmaður á árunum 1976-1981. Lék 30 landsleiki. Síðustu leikina lék Jón með ÍR á tímabilinu 1985-1986.

Fyrir utan að vera frábær leikmaður var Jón Jörundsson afbragðs félagsmaður. Hann þjálfaði yngri flokka um árabil. Einnig þjálfaði hann meistaraflokk kvenna og jafnframt meistaraflokk karla, síðast tímabilið 1990-1991. Allir sem kynntust Jóni minnast hans sem einstaklega góðs félaga, ljúfmennis og einlægs stuðningsmanns ÍR alla tíð. Þeir bræður, Jón og Kristinn, fylgdust náið með gengi ÍR og studdu alla tíð.

Jón lést eftir erfið veikindi 21. þessa mánaðar. Félagar í körfuknattleiksdeild minnast Jóns með hlýju og virðingu. Útför hans fer fram í Lindakirkju nk. föstudag kl. 13. Fjölskyldu Jóns er vottuð samúð.

Mynd / ÍR

Fréttir
- Auglýsing -