Framherjinn Amare Stoudemire er að öllum líkindum á leið til NY Knicks, en heimildir herma að hann hafi komist að samkomulagi um fimm ára samning upp á 100 milljónir dala.
Stoudemire hefur verið hjá Phoenix Suns allan sinn feril, en fékk sig lausan frá síðasta ári samnings síns eftir frekar stormasöm misseri þar sem eigandi Suns hefur falboðið hann í skiptum út um alla deild.
Suns voru ekki tilbúnir að bjóða honum viðlíka samning og Knicks, sérstaklega þar sem hann hefur átt við erfið meiðsli að etja síðustu ár, m.a. í hné og auga.
Þeir voru aukinheldur ekki tilbúnir til að bíða eftir að Stoudemire léti reyna á markaðinn í sumar og fóru því þá leið að ráða annan framherja, Hakim Warrick, til fjögurra ára og 18 milljóna dala.
Knicks voru hins vegar ekki í vafa og urðu í raun að fá a.m.k. einn toppleikmann til að réttlæta ömurlegheitin sem hafa verið þar viðvarandi í niðurskurði siðustu ára.
Knicks eru þó ekki hættir og hafa rætt við Dirk Nowitzki og auðvitað LeBron James og vonast til að bæta annari stjörnu í leikmannahóp sinn.
Það er svo annars að frétta að Paul Pierce mun sennilega ljúka ferli sínum hjá Boston Celtics, en hann samdi í dag við liðið sitt um fjögurra ára framlengingu upp á 61 milljón dala. Pierce hefur verið öll sín 12 ár hjá Boston og eiga Danny Ainge og félagar á skrifstofu Celtics aðeins eftir að semja við Ray Allen til að halda saman stóru þrenningunni, því að Kevin Garnet er með samning til tveggja ára í viðbót.



