spot_img
HomeFréttirAlvaran að hefjast!

Alvaran að hefjast!

 

Undirritaður ætlar að beiðni karfan.is að henda í nokkra pistla í vetur þegar ég hef tíma og nenni. Það eru eflaust ekki margir sem þekkja mig, nema viðkomandi aðilum hafi orðið starsýnt á bekk Keflavíkurliðsins árin fyrir hið svokallaða hrun eða fylgst með 1. deildinni í körfubolta – sem auðvitað enginn gerir nema eiga skyldmenni í beinan legg í einhverju liðanna þar.

 

Ég heiti Sævar Sævarsson og hef bæði verið leikmaður (í öllum merkingum þess orðs) og stjórnarmaður í Keflavík. Ferill minn hjá Keflavík einkenndist á því að vera „vara“, eða allt frá því ég var valinn besti leikmaður minibolta 9 ára tímabiliði 1989-90. Já, maður toppaði kannski örlítið of snemma. Upp allan meistaraflokkinn var ég varamaður í Keflavíkurliðinu og spilaði ekki nema munurinn væri amk 40 stig í aðra hvora áttina og innan við 30 sekúndur lifðu leiks. Árið 2010 hóf ég stjórnarferil minn hjá þessu ágæta félagi. Þar var ég auðvitað settur í varastjórn. Þegar ég loks hafði gert mig gildan innan stjórnar var auðvitað bara eitt sem kom til greina! Já, Sævar skyldi verða varaformaður. Því starfi gengdi ég í tvö ár eða þar til í vor að ég ákvað að gerast varapistlahöfundur fyrir karfan.is…

 

Ég ætla ekki að hafa innganginn lengri. Þetta verður um allt og ekkert í vetur. Þið ráðið hvort þið lesið en í guðanna bænum ekki kvarta í karfan.is ef ykkur mislíkar eitthvað. Sendið allar kvartanir á [email protected], hann setur þær í tætarann.

 

Það er ekki úr vegi að hefja fyrsta varapistilinn á því að líta á það helsta sem er að fara gerast núna þegar undirbúningstímabilið er búið og alvaran að hefjast. Lítum á helstu hlutina karlamegin;

 

– Lélegu liðin eiga enn eftir að átta sig á því og munu því vinna leiki til að byrja með.

 

– KR er ekki að fara tapa leik í upphafi móts þó Finnur þjálfari hafi viljað draga úr væntingum með því að segja að liðið væri ekki komið langt í undirbúningi sínum. Hvað þarf eiginlega að undirbúa? Þetta er nánast sama lið og hefur unnið tvö ár í röð, stútfullt af landsliðsmönnum sem allir koma undan sumri í hörku formi og vel rútíneraðir! Það er ekki eins og Böddi formaður hafi verið að sækja þá af goslokahátíð í Eyjum í gær – og þó svo að svo hefði verið myndu þeir samt ekki tapa leik.

 

-Fyrirliðar og forráðamenn spá Keflavík 8. sæti í Domino´s deild karla. Það má alveg meta það sem svo að Keflavík verði ekki í toppbaráttu enda liðið ekki beint farið sigurför um heiminn sl. ár. Einu get ég þó lofað – það er sama þó Keflavík mæti til leiks með 8. flokkinn sinn í vetur, liðið endar aldrei í 8. sæti.

 

-Tindastóll ætlar sér stóra hluti í vetur og er búið að setja saman dýrasta lið íslenskrar körfuboltasögu. Ég er mikill aðdáandi Tindastóls. Elska hvað þeir eru stórhuga og frábært að sjá hvað mikill metnaður er settur í körfuboltastarfið á Króknum – amk karlastarfið. Myndu undir venjulegum kringumstæðum taka Íslandsmeistaratitil með þennan frábæra mannskap en þurfa að sætta sig við annað sætið í deild. Taka bikarinn.

 

-Fylgist með Björgvin Ríkharðssyni, leikmanni ÍR, í vetur. Drengurinn verður rosalegur og á eftir að hlaða í nokkra 20 stiga leiki! Missti af öllu sl. tímabili vegna alvarlegra meiðsla en lítur hreint út sagt ótrúlega vel út í dag, hvernig sem á það er litið…

 

– Domino´s körfuboltakvöld er nýjung. Þvílíkt „line-up“ sem búið er að setja upp með KJ við stýrið og þetta byrjaði vel. Persónulega beið ég auðvitað spenntastur eftir Fannari Ólafs – þvílíkt sjónvarpsefni! Ég held hreinlega að ég hafi ekki beðið jafn spenntur eftir neinu síðan ég áætlaði að missa sveindóminn um 15 ára aldur. Sú bið tók reyndar tvö ár og var þess virði og það sama má segja um innkomu Fannars. Klárlega sjónvarpsmaður ársins 2015 og verðandi handhafi Eddunnar.

 

Sævar Sævarsson aka. Sjabbz

Fréttir
- Auglýsing -