Guðmundur Jónsson hefur sagt skilið við Þór Þorlákshöfn og mun leika með Keflavík á næsta tímabili í Domino´s deild karla. Hvalreki á fjörur Keflvíkinga en þessi 29 ára gamli leikmaður viðurkenndi að hann hefði nánast verið á mörkum þess að fá magasár því Guðmundur er uppalinn Njarðvíkingur sem heldur nú yfir lækinn til Keflavíkur. Eftir því sem Karfan.is kemst næst verður Guðmundur fyrsti uppaldi Njarðvíkingurinn sem mun þá hafa það á ferilskránni að leika með meistaraflokkum beggja Reykjanesbæjarliðanna.
Valur Orri Valsson leikmaður Keflavíkur ól manninn mestmegnis í Borgarnesi og á Sauðárkróki en staldraði vissulega við í tvö á í Ljónagryfjunni áður en hann gekk í raðir Keflavíkur. Engum blöðum er um það að flétta að síðustu þrjá áratugi eða svo hafa þessi tvö Reykjanesbæjarlið eldað saman grátt silfur og morgunljóst að svo verður áfram því Njarðvíkingar hafa tryggt sér þjónustu sem á rætur að rekja til Keflavíkur í Halldóri Erni Halldórssyni. Við ræddum við Guðmund Jónsson um vistaskiptin:
„Það var fyrirséð eftir síðasta tímabil að ég myndi ekki taka þriðja árið með Þór. Það hefði alltaf orðið erfitt með aksturinn sem tók mikinn tíma og maður var aldrei heima,“ sagði Guðmundur sem einnig er kominn með nýja vinnu í Reykjanesbæ. „Það var ekkert í boði annað en að koma heim í Njarðvík eða Keflavík og ég ræddi við bæði lið, mér leist vel á þetta hjá Keflavík og ákvað því að slá til,“ sagði Guðmundur og kvaðst hafa gefið sér góðan tíma í ákvörðunina.
„Þetta tók góðan tíma, að fara yfir lækinn gerði það að verkum að maður var á mörkum þess að fá magasár við það eitt að hugsa um þetta. Það var erfitt að ákveða sig en ákvörðun var tekin á endanum. Fyrir mér er þetta ekki eins og í gamla daga þar sem það var liggur við dauðadómur að skipta á milli liðanna. Þetta er ekki jafn mikið mál fyrir mér eins og flestir láta þetta hljóma. Ég þekki fullt af strákum í Keflavíkurliðinu og það er ekki eins og maður sé að fara að spila fyrir einhverja „idiota,“ sagði Guðmundur en aðspurður um hvort hann vissi til þess með nokkurri vissu að hann væri fyrsti uppaldi Njarðvíkingurinn til að fara og spila með Keflavík í meistaraflokki svaraði Guðmundur:
„Er þá ekki fínt að taka bara skrefið? Að fara úr uppeldisfélaginu er alltaf stórt skref, sama hvert maður fer. Auðvitað þurfti maður að leggjast vel yfir þetta og spá í málin en eftir umhugsun fannst mér það rétt að fara í Keflavík.“
Ólafur Helgi yngri bróðir Guðmundar er fyrirliði Njarðvíkurliðsins og við spurðum Guðmund hvort það hafi ekki kitlað að leika með litla bróður?
„Það gerði það alveg, maður er svo sem ekkert hættur og nóg eftir. Maður endar örugglega einhvern tíman með honum og þá tökum við bræðurnir saman gott tímabil, ég á enn nokkur ár eftir í þessu,“ sagði Guðmundur en hann kvaðst spenntur fyrir komandi leiktíð með Keflavík. „Ef við höldum sama hóp og í fyrra þá tel ég liðið geta gert góða hluti.“
Mynd/ Davíð Þór: Þessir andstæðingar verða samherjar á næsta tímabili í Domino´s deild karla.



