spot_img
HomeFréttirAllt jafnt hjá Þór og Njarðvík eftir hörkuleik í Þorlákshöfn

Allt jafnt hjá Þór og Njarðvík eftir hörkuleik í Þorlákshöfn

Þór lagði Njarðvík í kvöld í öðrum leik átta liða úrslita Subway deildar karla, 95-92. Einvígi liðanna er því jafnt 1-1, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig í undanúrslitin.

Fyrir leik

Fyrsta leik einvígis liðanna hafði Njarðvík unnið nokkuð þægilega í Ljónagryfjunni í síðustu viku, 87-73. Þar fór leikmaður þeirra Dwayne Lautier á kostum og setti 28 stig á meðan að fyrir Þór var Nigel Pruitt atkvæðamestur með 16 stig.

Gangur leiks

Heimamenn í Þór hófu leikinn á góðu áhlaupi og voru komnir með 10-2 forskot eftir aðeins nokkurra mínútna leik. Mest fer forysta Þórs í 14 stig í fyrsta leikhlutanum, en Njarðvík nær aðeins að koma til baka undir lok hans og er munurinn 11 stig fyrir annan leikhlutann, 30-19. Í öðrum leikhlutanum hafa heimamenn í Þór svo enn góð völd á leiknum, þar sem varnarlega fá þeir að vera fastir fyrir og svo eru allskonar skotað detta hjá þeim á hinum enda vallarins. Á lokamínútum hálfleiksins ná gestirnir úr Njarðvík að koma forskotinu niður þökk sé stórum körfum frá Dominykas Milka, Dwayne Lautier og Þorvaldar Orra Árnasonar og munar aðeins 2 stigum á liðunum þegar þau halda til búningsherbergja, 48-46.

Stigahæstur í liði Þórs í fyrri hálfleiknum var Nigel Pruitt með 12 stig á meðan að Dominykas Milka var kominn með 16 stig fyrir Njarðvík.

Heimamenn ná aftur tökum á leiknum í upphafi seinni hálfleiksins. Vinna þriðja leikhlutann með 5 stigum og eru 7 á undan fyrir lokaleikhlutann, 73-66. Með góðu áhlaupi um miðjan fjórða leikhluta nær Njarðvík að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum, 83-85. Undir lokin er leikurinn svo í járnum og er það að lokum ótrúlegur þristur frá Tómasi Vali Þrastarsyni þegar um 10 sekúndur voru eftir sem skilur liðin að, 95-92.

Kjarninn

Eftir vægast sagt andlausa frammistöðu í fyrsta leik liðanna geta Þórsarar verið ánægðir með hvernig lið þeirra mætti til leiks í kvöld. Voru miklu fastari fyrir varnarlega og höfðu mikið meiri trú á því sem þeir voru að gera sóknarlega. Heildarframmistaða liðsins var líka betri en í síðasta leik, þar sem 6 leikmanna þeirra settu meira en 10 stig í leiknum í kvöld.

Atkvæðamestir

Nigel Pruitt var atkvæðamestur í liði Þórs í kvöld með 25 stig og 3 fráköst. Honum næstur var Tómas Valur Þrastarson með 18 stig og 7 fráköst.

Fyrir Njarðvík voru Dominykas Milka með 21 stig, 14 fráköst og Dwayne Lautier með 24 stig og 8 fráköst.

Næsti leikur

Þriðji leikur Þórs og Njarðvíkur er á dagskrá komandi fimmtudag 18. apríl í Ljónagryfjunni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -